Fótbolti

Fagnað um miðja nótt af þúsundum stuðnings­manna

Sindri Sverrisson skrifar
Það er óhætt að segja að mikill áhugi sé á komu Victors Osimhen til Tyrklands.
Það er óhætt að segja að mikill áhugi sé á komu Victors Osimhen til Tyrklands. Getty/Islam Yakut

Nígeríski fótboltamaðurinn Victor Osimhen lenti í Istanbúl um miðja nótt en það kom ekki í veg fyrir að þúsundir stuðningsmanna Galatasaray tækju á móti honum.

Þegar þessi 25 ára gamli sóknarmaður lenti svo í Istanbúl voru þúsundir stuðningsmanna Galatasaray mættir til að taka á móti honum, þó að það væri klukkan þrjú um nótt. Þeir sungu með honum og kveiktu á blysum úti á götu, og ljóst að mikil eftirvænting ríkir eftir því að sjá Osimhen láta til sín taka með tyrknesku meisturunum.

Osimhen virtist kominn í öngstræti eftir að hvorki enska félagið Chelsea né sádiarabíska félagið Al-Ahli gekk frá kaupum á honum fyrir lok félagaskiptaglugga.

Á meðan hafði félagið hans, Napoli, sleppt því að skrá hann í leikmannahópinn fyrir keppni í ítölsku A-deildinni í vetur.

Á skömmum tíma tókst hins vegar að ganga frá því að Osimhen færi að láni til Galatasaray, fram á næsta sumar, gegn því að tyrkneska félagið greiddi stærstan hluta launa hans á tímabilinu.

Engin skuldbinding eða möguleiki á kaupum fylgir lánssamningnum og er Osimhen samningsbundinn Napoli til 2027, með klásúlu um að hægt sé að kaupa hann fyrir 75 milljónir evra.

Osimhen hefur skorað 76 mörk í 133 leikjum fyrir Napoli og var í lykilhlutverki þegar liðið varð ítalskur meistari árið 2023, þegar hann skoraði 26 mörk. Hann skoraði hins vegar 15 mörk á síðustu leiktíð og Napoli hefur síðan fest kaup á belgíska framherjanum Romelu Lukaku fyrir 30 milljónir punda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×