Smám saman hefur hægt á eldgosinu við Sundhnúksgíga, sem hófst 22. ágúst síðastliðinn.
„Það hefur hægt verulega á hraunflæði, það er nánast ekki neitt lengur. Bara örfáir metrar á dag, tíu metrar kannski. Það er mjög lítið að frétta af gosinu sjálfu. Það sem við höfum aftur á móti séð er að það er ekki lengur sig í Svartsengi, það hefur nánast ekki verið nein aflögun í Svartsengi síðustu daga,“ segir Benedikt Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga hjá Veðurstofu Íslands.
Ekkert landris
Það sé túlkað þannig að flæði kviku inn í kvikuhólfið undir Svartsengi sé sambærilegt því sem fer út úr því í eldgosinu.
„Þannig að við erum með eitthvað jafnvægi með flæði að neðan og upp á yfirborðið,“ segir Benedikt.
Þannig að þið eruð ekki að mæla landris?
„Nei, ekki eins og staðan er núna. Eflaust byrjar landris en við erum ekki að sjá það ennþá. Það tekur tíma að sjá hvort það er eitthvað minna landris en eins og staðan er núna er það frekar flatt. Við sjáum það kannski í næstu viku hvort það verði eins og í síðustu gosum.“
![](https://www.visir.is/i/D3704A9F11110D4950996B461E554EC140A3992C55B3E9BC057D53C7C22672F8_713x0.jpg)
Benedikt segir enga hættu stafa að innviðum eins og hraunflæðið er núna.
„Miðað við núverandi flæði þá tekur marga mánuði fyrir hraun að ná einhverjum innviðum.“
Þá hafi jarðskjálftar nánast alveg hætt.
„Skjálftavirknin hefur dottið verulega niður. Hún var svolítil í síðustu viku en hefur dottið niður og er mjög lítil núna,“ segir Benedikt.