Íslenski boltinn

„Þá er ekki slæmt að vera með eitt stykki Viðar Örn“

Sindri Sverrisson skrifar
Viðar Örn Kjartansson er kominn í gang og það gæti reynst KA dýrmætt nú þegar styttist í bikarúrslitaleik.
Viðar Örn Kjartansson er kominn í gang og það gæti reynst KA dýrmætt nú þegar styttist í bikarúrslitaleik. vísir/Diego

Viðar Örn Kjartansson hefur verið að gera góða hluti með KA undanfarið og skorað fimm mörk í Bestu deildinni í fótbolta á rétt rúmum mánuði. Hann var til umræðu í Stúkunni á Stöð 2 Sport í vikunni.

Viðar samdi nokkuð óvænt við KA í vor eftir langan og fjölbreyttan atvinnumannaferil, þá nýorðinn 34 ára gamall. Hann þurfti að bíða fram til 28. júní eftir fyrsta deildarleiknum í byrjunarliði KA en hefur nú náð átta byrjunarliðsleikjum, og er farinn að raða inn mörkum.

Hann skoraði tvö lagleg mörk gegn Breiðabliki um helgina en KA varð þó að sætta sig við 3-2 tap, sitt fyrsta tap síðan í júní. Tapið þýðir að KA mun spila í neðri hluta Bestu deildarinnar þegar henni verður skipt upp síðar í þessum mánuði, en liðið á einnig fyrir höndum bikarúrslitaleik við Víkinga.

„Stóra planið hjá KA sé bikarúrslitaleikurinn“

„Viðar er búinn að finna skotskóna, kominn í það stand þar sem Haddi [Hallgrímur Jónasson, þjálfari KA] treystir honum til að spila leikina. Tvö mjög góð mörk [gegn Breiðabliki],“ sagði Guðmundur Benediktsson í Stúkunni en brot úr þættinum má sjá hér að neðan.

Klippa: Stúkan: Viðar Örn í stuði

„KA er að fara að spila í neðri hlutanum, gegn lélegri liðunum í deildinni, og Viðar ætti því svo sannarlega að geta fundið mörkin sín í þessum síðustu sex leikjum sem eftir eru hjá KA, og í bikarúrslitaleiknum sem er handan við hornið. Þá er ekki slæmt að vera með eitt stykki Viðar Örn,“ sagði Guðmundur og Atli Viðar Björnsson tók við boltanum:

„Mér hefur fundist það aðeins undanfarið að stóra planið hjá KA sé bikarúrslitaleikurinn. Þetta snýst allt um að vera með liðið á sem bestum stað þá. Ég held að það sé ekki neitt annað að fara að gerast hjá KA næstu vikur en að vera klárir 21. september, þegar bikarúrslitaleikurinn fer fram. Þar á meðal að hafa þennan mann í sem bestu standi,“ sagði Atli Viðar.


Tengdar fréttir

„Hefði enginn dómari í heiminum sleppt þessu“

Hárréttur dómur eða óskiljanlegur? Eða kannski mannleg mistök í spennuþrungnum stórleik? Það voru að minnsta kosti heldur betur skiptar skoðanir í Stúkunni, á rauða spjaldinu sem Hólmar Örn Eyjólfsson fékk í 3-2 sigri Víkinga á Val í Bestu deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×