Innlent

Skóla­börn óttuðust mann sem sofnaði á bekk í al­mennings­garði

Árni Sæberg skrifar
Atvikið varð á Ísafirði en manninum hefur verið komið á viðeigandi heilbrigðisstofnun í Reykjavík,
Atvikið varð á Ísafirði en manninum hefur verið komið á viðeigandi heilbrigðisstofnun í Reykjavík, Vísir/Vilhelm

Lögreglan á Vestfjörðum kom manni í andlegu ójafnvægi undir læknishendur í gær eftir að tilkynnt var um veru hans í almenningsgarði á Ísafirði. Hann hafði legið sofandi á bekk í garðinum yfir nóttina og þegar kennsla hófst í grunnskóla bæjarins hafði maðurinn vaknað og nemendur orðið hræddir við hann.

Þetta segir í skriflegu svari Lögreglunnar á Vestfjörðum við spurningum Vísis um málið. Vísi barst ábending um að maður hefði verið handtekinn eftir að hafa ógnað grunnskólabörnum með hnífi á Ísafirði.

Í svari lögreglunnar fyrir vestan segir að maðurinn hafi verið með vasahníf í fórum sínum en að sögn vitna hafi hann ekki beinlínis ógnað nærstöddum með hnífnum en þó virst vera í andlegu ójafnvægi.

Lögregla hafi kallað til lækni til að skoða og meta ástand mannsins og í kjölfarið hafi hann verið fluttur á viðeigandi heilbrigðisstofnun í Reykjavík.

„Starfsfólk grunnskólans brást hárrétt við með því að kalla eftir aðstoð lögreglu og hringja í Neyðarlínuna, 112. Enda um óvenjulegar aðstæður að ræða, maður í andlegu ójafnvægi. Alltaf gott að vera vel vakandi fyrir óvenjulegum aðstæðum og gæta varúðar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×