Erlent

Utan­ríkis­ráð­herra Sví­þjóðar hættir

Atli Ísleifsson skrifar
Tobias Billström tók fyrst sæti á sænska þinginu árið 2002.
Tobias Billström tók fyrst sæti á sænska þinginu árið 2002. EPA

Tobias Billström, utanríkisráðherra Svíþjóðar, hefur tilkynnt að hann segi af sér embætti og ætli sér að hætta afskiptum af stjórnmálum. Afsögnin kemur nokkuð á óvart en hann hefur gegnt utanríkisráðherraembættinu frá árinu 2022.

Billström, sem er þingmaður hægriflokksins Moderaterna, greindi frá ákvörðun sinni á samfélagsmiðlinum X í dag. Þar segir að hann muni jafnframt láta af þingmennsku og hætta afskiptum af stjórnmálum.

„Ég er bara fimmtíu ára og hlakka til að leggja mitt af mörkum og vinna ötullega á öðrum vettvangi þar sem ég get lagt mig fram,“ segir Billström.

Forsætisráðherrann Ulf Kristersson segir í samtali við sænska fjölmiðla að Billström hafi gegnt embættinu með glans og óskar honum jafnframt góðs gengis. Í embættistíð sinni sem utanríkisráðherra hefur Billström meðal annars fylgt Svíþjóð inn í Atlantshafsbandalagið, NATO.

Billström hefur ekkert tjáð sig sérstaklega um ástæður afsagnarinnar en Expressen segir frá því hana megi rekja til ósættis hans og Kristerssons.

Billström tók sæti á sænska þinginu árið 2002. Hann hefur áður meðal annars gegnt embætti vinnumálaráðherra, innflytjendamála og þingflokksformanns Moderaterna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×