Handbolti

Eyja­menn án tveggja leik­manna í kvöld vegna mis­taka

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Petar Jokanovic ver ekki mark Eyjamanna í leiknum á Hlíðarenda í kvöld.
Petar Jokanovic ver ekki mark Eyjamanna í leiknum á Hlíðarenda í kvöld. Vísir/Vilhelm

Valur og ÍBV spila í kvöld opnunarleikinn í Olís deild karla í handbolta en gestirnir úr Vestmannaeyjum vera vængbrotnir í þessum leik.

Samkvæmt upplýsingum blaðamanns Vísis á leiknum þá gleymdu Eyjamenn að staðfesta félagsskipti tveggja leikmanna hjá Handknattleikssambandi Íslands.

Markvörðurinn Petar Jokanovic og vinstri skyttan Marino Gabrieri verða því ekki með ÍBV í kvöld. Þeir eru ekki með leikheimild frá HSÍ.

Jokanovic var að renna út á samningi en Gabrieri samdi við liðið í maímánuði. Báðir ferðuðust þeir með liðinu upp á land en hvorugur þeirra getur tekið þátt í leiknum.

Gabrieri er stór og öflug króatísk skytta sem kom til ÍBV frá bosníska liðinu RK Sloboda Tuzla þar sem hann spilaði á síðasta tímabili.

Fjarvera Petars þýðir að Pavel Miskevich er eini markvörðurinn á skýrslu ÍBV í kvöld.

Eyjamenn munu sakna þessara leikmanna í leiknum en hægt er að fylgjast með beinni textalýsingu frá leiknum hér á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×