Erlent

Minnst fjórir látnir eftir skot­á­rás í mennta­skóla

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Nemendur voru fluttir á fótboltavöll skólans eftir að skothríðinni lauk.
Nemendur voru fluttir á fótboltavöll skólans eftir að skothríðinni lauk. AP

Í það minnsta fjórir eru látnir eftir að skotárás var framin í menntaskóla í Georgíuríki í Bandaríkjunum í dag. Auk hinna fjögurra látnu eru fleiri tugir særðir.

Lögregluyfirvöld á svæðinu hafa gefið út að einn sé í haldi lögreglu vegna árásarinnar. Samkvæmt CNN er hinn grunaði á menntaskólaaldri en ekki liggur fyrir hvort hann sé nemandi við skólann.

Skothríðin hófst í Appalachee-menntaskólanum í Winder í Georgíu í morgunsárið á staðartíma.

Sjónarvottur lýsir því í samtali við bandaríska miðilinn ABC að hann hafi heyrt byssuhvelli í tíma. Þá hafi kennari hans opnað dyr kennslustofunnar til að gá hvað væri á seyði en þá hafi annar kennari skólans komið hlaupandi og sagt henni að loka hurðinni vegna þess að virkur skotmaður væri á ferðinni.

Síðar hafi einhver barið ítrekað á dyr kennslustofunnar, þar sem nemendur og kennarar skýldu sér, og krafist þess að honum yrði hleypt inn. Þegar hinn sami gafst upp á að komast inn í kennslustofuna hófst skothríðin á nýjan leik og örvæntingaróp ómuðu um gangana. Þegar skothríðin var yfirstaðin var hópi kennara og nemenda fylgt á fótboltavöll skólans þar sem hlúð var að þeim.

CNN greinir einnig frá því að þyrlur hafi verið kallaðar út til að flytja særða á sjúkrahús.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×