Skoðun

Rangar full­yrðingar for­stjóra Lands­virkjunar – kafli 1

Haraldur Þór Jónsson skrifar

Í Speglinum á Rás 2 í gær, miðvikudaginn 4. september, var rætt við forstjóra Landsvirkjunar. Viðtalið var rúmar 7 mínútur og átti ég í fullu fangi við að punkta niður allar þær röngu fullyrðingar sem forstjórinn hélt fram. Satt best að segja trúði ég ekki mínum eigin eyrum hvað var hægt að koma fyrir mörgum staðreyndavillum á framfæri á jafn stuttum tíma!

Ég sé mig því tilneyddan að leiðrétta allar rangfærslurnar, en sökum hversu margar þær voru þá mun ég birta leiðréttingarnar í nokkrum köflum á næstu dögum.

Í byrjun vill ég samt taka undir orð forstjórans, að okkar samskipti hafa ávallt verið góð og má segja að við séum fastir í hjónabandi, þ.e.a.s.. sveitarfélagið og Landsvirkjun. Við komumst ekki hjá því að eiga samskipti um ókomna tíð, svo mikill kostur er að geta haft þau samskipti góð. Vandamálið sem við báðir erum að kljást við er lagaumgjörð sem gerir þetta órjúfanlega hjónaband frekar erfitt síðustu misserin. Ábyrgðin á þeirri lagaumgjörð liggur hjá núverandi ríkisstjórn.

En víkjum okkur að staðreyndavillunum. Ábyrgð forstjóra Landsvirkjunar er að reka orkufyrirtæki þjóðarinnar á meðan ábyrgð mín sem oddviti Skeiða- og Gnúpverjahrepps er að bera ábyrgð á samfélagi sem er í nærumhverfi virkjana sem Landsvirkjun starfhæfir.

Forstjóri Landvirkjunar talar um að valdi fylgir ábyrgð og sveitarfélagið sé að misbeita því valdi. Þar greinir okkur á, því sveitarfélagið hefur samkvæmt sveitarstjórnarlögum helstu skyldur sínar gagnvar íbúum nærsamfélagsins. Það ríkir á því lagaleg óvissa um hvort okkur sé yfir höfuð heimilt að halda áfram í óbreyttri mynd sökum núverandi lagaumgjarðar. Samkvæmt fjárhagslegri greiningu sem KPMG gerði fyrir Landsvirkjun þar sem greind voru fjárhagsleg áhrif Landsvirkjunar á Skeiða- og Gnúpverjahrepp kom fram að starfsemi Landsvirkjunar leiðir í flestum tilfellum til fjárhagslegs tjóns á rekstur Skeiða- og Gnúpverjahrepps. Einnig hefur komið fram eftir samskipti og minnisblöð sveitarfélagsins við Innviðaráðuneytið á árinu 2023 að mesti áhættuþáttur í rekstri sveitarfélagsins séu núverandi virkjanir sem Landsvirkjun starfrækir í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Slík staða er ekki forstjóra Landsvirkjunar að kenna heldur núverandi lagaumgjarðar sem ríkisstjórn Íslands ber ábyrgð á. Samkvæmt sveitarstjórnarlögum bera sveitarfélög lagalega skyldu til að tryggja að sveitarfélagið hafi fjárhagslega getu til að standa við skuldbindingar sínar. Hluti að því er að heimila ekki framkvæmdir sem geta valdið sveitarfélaginu fjárhagslegu tjóni, sem núverandi lagaumgjörð getur gert.

Forstjóri Landsvirkjunar fullyrðir að vindorkuverið Búrfellslundur eigi eftir að hafa jákvæð áhrif á samfélagið. Nú verð ég að staldra við og hvetja forstjórann til að lesa umhverfismatsskýrsluna sem Landsvirkjun framkvæmdi. Í skýrslunni eru margar blaðsíður um neikvæð umhverfisáhrif framkvæmdirnar. Ef umhverfisáhrifin eru svona gríðarlega jákvæð, af hverju er þá ekki verið að keppast við að skipuleggja vindorkuver þar sem orkan er notuð, í nágrenni t.d. höfuðborgarsvæðisins. Af hverju þarf að fara með vindorkuverið uppá Hálendi Íslands, tugum og hundruðum kílómetrum frá þeim stað sem nota á orkuna. Ég vil nota þetta tækifæri til að skora á forstjóra Landsvirkjunar að birta opinberlega rökstuðning fyrir máli sínu og samhliða birta öll neikvæðu áhrifin sem koma fram í umhverfismatsskýrslunni sem framkvæmd var árið 2016 um Búrfellslund. Almenningur getur þá vegið og metið hvort þau rök haldi sem forstjórinn fullyrði að séu svona jákvæð við vindorkuverið.

Forstjórinn talar um að Búrfellslundur hafi farið í gegnum 10 ára ferli rammaáætlunar sem sé flókið og umsvifamikið samráðsferli. Það ferli endi með ákvörðun Alþingis og Alþingi setji virkjanakostinn í nýtingarflokk með lagasetningu. Þá skulum við rifja upp hvernig þetta ferli var allt saman. Búrfellslundur kom til umfjöllunar Verkefnastjórnunar rammaáætlunar árið 2015 sem vindorkuver með 200MW uppsett afl. Niðurstaða Verkefnastjórnunar var versta mögulega útkoma gagnvart ferðaþjónustu og útivist og lagði verkefnastjórnin til að Búrfellslundur yrði settur í biðflokk. Aftur kom Búrfellslundur inn í umfjöllun Verkefnastjórnunar rammaáætlunar árið 2020, en nú var búið að minnka hann niður í 120MW uppsett afl. Þrátt fyrir minnkunina, þá var niðurstaða Verkefnastjórnunar rammaáætlunar enn verri gagnvart ferðaþjónustu og útivist sökum þess að atvinnugreinin ferðaþjónusta hafði meira en tvöfaldast af stærð á þessum 5 árum. Verkefnastjórnin lagði því til að Búrfellslundur yrði settur í biðflokk aftur. Í júní árið 2022 tók svo Alþingi ákvörðun, gegn ráðleggingu Verkefnastjórnunar rammaáætlunar og setti Búrfellslund í nýtingarflokk. Það var ekki af því að það var búið að vinna þetta svona faglega, heldur pólitísk ákvörðun sem var ekki í samræmi við faglegu vinnu Verkefnastjórnunarinnar.

Í 7. gr. laga um rammaáætlun hafa sveitarfélög heimild til að fresta því að setja virkjanakost í skipulag sitt. Til þess að nýja þá heimild, þarf að tilkynna Skipulagsstofnun um þá frestun innan eins árs frá því að Alþingi setur virkjanakost í nýtingarflokk. Það gerði sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps í júní 2023 og frá þeim tímapunkti skal samkvæmt lögum um rammaáætlun fara með virkjanakostinn eins og hann sé í biðflokki. Það þýðir að stjórnvöldum er ekki heimilt að veita leyfi fyrir virkjanakostinum. Frá þeim tímapunkti hefur Landsvirkjun ekki átt nein samskipti við Skeiða- og Gnúpverjahrepp um Búrfellslund heldur freistað þess að sækja aðeins um hjá Rangárþingi Ytra að koma virkjuninni í skipulag. Í umhverfismatinu sem Landsvirkjun vann og áliti Skipulagsstofnunar kemur skýrt fram af framkvæmdasvæði og áhrifasvæði Búrfellslundar er í Skeiða- og Gnúpverjahreppi og Rangárþingi Ytra.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps hefur því í öllum tilfellum farið að núgildandi lögum á meðan Landsvirkjun hefur reynt að sneiða fram hjá löggjöfinni. Nú liggur fyrir að Skeiða- og Gnúpverjahreppur mun kæra útgefið virkjunarleyfi Orkustofnunar. Verði niðurstaða Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála að vera sammála sveitarfélaginu og fellir virkjunarleyfið úr gildi er ljóst að Búrfellslundur verður ekki byggður, að minnsta kosti ekki næstu 10 árin. Ætlar forstjóri Landsvirkjunar þá að axla ábyrgð á mistökum Landsvirkjunar ? Ég spyr hversu mörgum milljörðum er búið að eyða í undirbúning Búrfellslundar án þess að tryggja það að öll leyfi fáist ? Hvers vegna hefur Landsvirkjun ekki sótt um að setja Búrfellslund í skipulag hjá Skeiða- og Gnúpverjahreppi ? Ætlar Landsvirkjun að halda áfram undirbúningi Búrfellslundar áður en Úrskurðarnefndin kveður upp úrskurð sinn ? Gaman væri að fá svör við þessum spurningum.

Það eru fjölmörg atriði eftir sem þarf að leiðrétta og mun ég birta kafla nr. 2 á morgun.

Höfundur er oddviti í Skeiða- og Gnúpverjahreppi þar sem mest raforka hefur verið framleidd í sögu Íslands.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×