Innlent

Meiri­hluti vill að hið opin­bera nýti vindinn

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Svona gæti Búrfellslundur litið út ef verkefnið gengur eftir.
Svona gæti Búrfellslundur litið út ef verkefnið gengur eftir. Landsvirkjun

Mikill meirihluti þjóðarinnar telur mikilvægt að vindorkuframleiðsla sé í höndum opinberra aðila, samkvæmt nýrri könnun Maskínu. Helmingur þjóðarinnra er hlynntur fyrirhugaðri vindorkuframleiðslu í Búrfellslundi. 

Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu dagana 21. til 28. ágúst, og voru svarendur 1.049 talsins. 

Í könnuninni var spurt hvort fólk teldi skipta miklu, litlu eða engu máli að afla aukinnar orku á Íslandi. Þar sögðust 32,9 prósent telja það skipta mjög miklu máli, en 32,1 prósent fremur miklu. Samanlagt voru þeir 11 prósent sem sögðust telja það skipta engu, mjög litlu eða fremur litlu máli, en 23 prósent sögðust telja það í meðallagi mikilvægt. 

Fólk var einnig spurt hversu hlynnt eða andvígt það væri fyrihugaðri vindorkuframleiðslu í Búrfellslundi. Þar sögðust 20,5 prósent mjög hlynnt áformunum, en 29,2 prósent frekar hlynnt. Því eru rétt tæp 50 prósent hlynnt áformunum, en 26,8 prósent voru í meðallagi hlynnt eða andvíg, á meðan 23,4 prósent sögðust annað hvort fremur eða mjög andvíg áformunum. 

Loks var spurt hvort fólk teldi það skipta miklu, litlu eða engu máli að vindorkuframleiðsla væri í höndum opinberra aðila. Þar sögðust 50,8 prósent telja það skipta mjög miklu máli, og 24,9 prósent fremur miklu. 

Kjósendur VG mest á móti en Viðreisnarfólk með

Samhliða könnuninni var spurt hvaða flokk fólk myndi kjósa ef gengið yrði til Alþingiskosninga í dag. Þeir sem nefndu Miðflokkinn voru hlutfallslega líklegastir til þess að segja aukna orkuöfnlun skipta mjög miklu máli, en þar á eftir komu kjósendur Sjálfstæðisflokks. Fólk sem gaf upp Pírata er hins vegar líklegast til að telja aukna orkuöflun engu máli skipta. 

Kjósendur VG voru hlutfallslega líklegastir til að vera mjög andvígir fyrirhugaðri vindorkuframleiðslu í Búrfellslundi, en stuðningsfólk Viðreisnar var líklegast til að vera mjög hlynnt áformunum. 

Þá er stuðningsfólk Sósíalistaflokksins mest áfram um að vindirkuframleiðsla sé í höndum opinberra aðila, en 76,2 prósent þeirra sögðu það skipta mjög miklu máli. Úr hópi Sjálfstæðismanna sögðust 33,3 prósent telja það mjög mikilvægt, en 45,9 prósent Framsóknarmanna. Þegar kemur að öðrum flokkum var hlutfallið alltaf yfir 50 prósent. 

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkti í gær að fela oddvita að kæra til úrskurðanefndar umhverfis- og auðlindamála virkjunarleyfið sem Orkustofnun hefur gefið út fyrir Búrfellslund. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×