Íslenski boltinn

Rosenörn yfir­gefur Stjörnuna þó tíma­bilinu sé ekki lokið

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Rosenörn í einum af sex leikjum sínum fyrir Stjörnuna.
Rosenörn í einum af sex leikjum sínum fyrir Stjörnuna. Vísir/Diego

Markvörðurinn Mathias Rosenörn mun ekki spila meira fyrir Stjörnuna á þessari leiktíð eftir að hafa fengið samningi sínum rift um síðustu mánaðarmót.

Það er Fótbolti.net sem greinir frá að þessi danski markvörður sé nú frjáls ferða sinna en hann gekk í raðir Stjörnunnar fyrir yfirstandandi tímabil.

Hinn 31 árs gamli Rosenörn kom fyrst hingað til lands fyrir síðasta sumar og lék frábærlega með Keflavík þó svo að liðið hafi fallið úr Bestu deildinni. Hann var valinn leikmaður ársins hjá félaginu en ákvað að taka ekki slaginn í Lengjudeildinni.

Fyrir yfirstandandi tímabil samdi Rosenörn við Stjörnuna og átti hann að veita Árna Snæ Ólafssyni samkeppni um stöðu í byrjunarliðinu. Það gekk að vissu leyti upp en Árni Snær hefur þó spilað lungann af leikjum liðsins í sumar og er Rosenörn því horfinn á braut. Alls spilaði hann tvo leiki í Bestu deildinni og fjóra í Mjólkurbikarnum.

Stjarnan er í 6. sæti Bestu deildarinnar og þegar ein umferð er eftir af hefðbundinni deildarkeppni. Þá er Stjarnan aðeins fjórum stigum frá Val í 3. sætinu og Garðbæingar því enn í hörku Evrópubaráttu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×