Fótbolti

Rifrildi úti á velli eftir úr­­slita­­leik EM olli skilnaðinum

Sindri Sverrisson skrifar
Það virtist fara mjög vel á með Alice Campello og Alvaro Morata þegar þessi mynd var tekin eftir úrslitaleik EM. Campello mun hins vegar ekki hafa viljað hafa fjölskyldu Morata með á vellinum.
Það virtist fara mjög vel á með Alice Campello og Alvaro Morata þegar þessi mynd var tekin eftir úrslitaleik EM. Campello mun hins vegar ekki hafa viljað hafa fjölskyldu Morata með á vellinum. Getty/Ian MacNicol

Spænski landsliðsfyrirliðinn Alvaro Morata skildi við eiginkonu sína, fyrirsætuna Alice Campello, í ágúst. Nú hefur blaðakona greint frá því að rifrildi úti á velli, eftir úrslitaleik EM, hafi verið kornið sem fyllti mælinn.

Morata og félagar í spænska landsliðinu urðu Evrópumeistarar í Þýskalandi með sigri gegn Englandi í úrslitaleik. Sigurvíman virðist þó hafa fallið í skuggann af rifrildi hjónanna, segir blaðakonan Alexia Rivas samkvæmt Marca.

„Þetta var rifrildi á EM. Það var verið að fagna Evrópumeistaratitlinum og Alice vildi bara að hún, börnin þeirra og vinir fengju að vera á vellinum. Ekki foreldrar hans eða fjölskylda,“ segir Rivas. Út af þessu hafi allt orðið brjálað.

Hjónin fyrrverandi eiga fjögur börn saman. Campello hefur sjálf tjáð sig um skilnaðinn og meðal annars sagt kjaftasögur um framhjáhald Morata vera hreinasta kjaftæði. Þar að auki að þau muni enn elska hvort annað og sýna hvort öðru virðingu.

Rivas segir að útilokað sé að Morata og Campello taki saman á ný.

„Það er engin leið til baka. Lögfræðingarnir eru þegar byrjaðir að græja skilnaðarpappírana og þetta er sameiginleg ákvörðun,“ segir Rivas.

Eftir Evrópumótið í Þýskalandi gekk Morata til liðs við AC Milan á Ítalíu í júlí, eftir að hafa verið keyptur frá Atlético Madrid. Þessi 31 árs gamli framherji skrifaði undir samning sem gildir til ársins 2028.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×