Enski boltinn

Það besta í lífinu hjá Ödegaard

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Martin Ödegaard er spenntur fyrir nýju hlutverki en það er hvorki hjá Arsenal né norska landsliðinu.
Martin Ödegaard er spenntur fyrir nýju hlutverki en það er hvorki hjá Arsenal né norska landsliðinu. Getty/Alex Burstow

Norski knattspyrnumaðurinn Martin Ödegaard bíður spenntur þessa dagana en hann er að verða faðir í fyrsta sinn. Hann er viss um að þessi stóra breyting á lífinu muni henta honum fullkomlega.

Ödegaard er fyrirliði Arsenal sem er líklegt til afreka í ensku úrvalsdeildinni í vetur en hann er einnig fyrirliði norska landsliðsins.

Ödegaard er nú með norska landsliðinu og hitti fjölmiðlamenn í Kasakstan í dag þar sem norska liðið spilar í Þjóðadeildinni á morgun. Þetta var í fyrsta sinn sem hann talar opinberlega um fjölgunina í fjölskyldunni.

„Það er alveg á hreinu að þetta er risastórt. Þetta er það besta í lífinu þó að ég ætli ekki að fara að tala mikið um þetta hér. Ég hlakka til að verða pabbi,“ sagði Martin Ödegaard.

„Ég held að þetta henti mínu daglega lífi bara mjög vel,“ sagði Ödegaard. NRK segir frá.

Hinn 25 ára gamli Ödegaard á von á barninu með 28 ára kærustu sinni Helene Spilling. Þau sögðu frá tíðindunum á dögunum á samfélagsmiðlum sínum.

Ödegaard og Spilling hafa verið par síðan í byrjun síðasta árs og þetta er fyrsta barn þeirra beggja.

Norsku blaðamennirnir forvitnuðust um kyn barnsins en fengu hreint og skýrt svar.

„Ég hef engin plön um að segja ykkur það,“ sagði Ödegaard brosandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×