Innlent

Reyna að ná sam­bandi við sendanda neyðarkallsins

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Metið verður hvort hægt verði að koma björgunarmönnum í land.
Metið verður hvort hægt verði að koma björgunarmönnum í land. Vísir/Vilhelm

Búist er við því að varðskipið Þór komi að Hlöðuvík á Hornströndum á hverri stundu nú en óljóst neyðarkall barst lögreglunni á Vestfjörðum þaðan um hádegisbil.

Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, segir í samtali við fréttastofu að fyrsta verkefni áhafnarinnar verði að kalla eftir þeim sem gáfu frá sér neyðarkallið í Hlöðuvík og svo á Hornvík.

Ekki liggur fyrir nákvæmlega hvar neyðarkallið á uppruna sinn en horft er til neyðarskýlis sem er að finna í Hornvík. Ekki liggur heldur fyrir hvers eðlis kallið er þar sem ekki hefur náðst samband við þann eða þá sem kölluðu aftur.

Ásgeir segir að reynt verði að ná sambandi við þann sem sendi neyðarboðið á sérstakri neyðarrás númer sextán. Þá verði staðan metin í framhaldinu og skoðað hvort veðuraðstæður leyfi að björgunarmenn komist í land.

Mikið hvassviðri hefur verið á Vestfjörðum og sjógangur mikill. Skútur hafa slitnað frá legufærum á Pollinum á Ísafirði og fokið í strand ásamt því að þakplötur hafa losnað af húsum í bænum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×