Líkleg meginskýring á óvæntri innrás Úkraínuhers inn í Kursk hérað í Rússlandi, sem hófst 6. ágúst, virðist hafa verið að niðurlægja Pútín-stjórnina til þess einkum að þvinga hana til að flytja herlið frá Donbass svæðinu í austurhluta Úkraínu til að verjast í Kursk.*
Mikið hefur skiljanlega verið gert úr djarfri sókn Úkraínuhers inn í Kursk og jafnvel haldið fram að hún gerbreyti stöðunni í Úkraínustríðinu. Þó hægt hafi mjög á henni felur innrásin vissulega í sér mikla niðurlægingu fyrir Pútín forseta, rússneska herinn og rússneska stjórnkerfið. Innrásarlið hefur ekki farið inn í Rússland síðan 1941 þegar her nasista réðist þar inn í síðari heimsstyrjöld.
Spurningin sem skiptir mestu er hvort innrás Úkraínuhers í Rússland í Kursk styrki hann í stríðinu í Úkraínu en einkum í Donbass þar sem hann hefur átt undir högg að sækja? Þar hefur þungamiðja stríðsins legið um langa hríð og Rússar verið í sókn að undanförnu þótt hægt hafi gengið.
Að tapa Donbass yrði alvarlegt áfall fyrir Úkraínu. Jafnframt mundu margir líta á það sem rússneskan sigur því á Donbass eru héruðin Donetsk og Luhansk, yfirlýst rússnesk lýðveldi á úkraínsku landi. Þar var upphaf stríðsins 2014. Áður en kom til stórfelldrar innrásar í Úkraínu í febrúar 2022 höfðu Rússar og rússneskumælandi úkraínskir bandamenn þeirra lagt 2/3 hluta Donbass undir sig.
Innrásarlið hefur ekki farið inn í Rússland síðan 1941 þegar her nasista réðist þar inn í síðari heimsstyrjöld.
Aðalatriði í stríðinu nú er hvort innrásin í Kursk veiki eða stöðvi sókn rússneskra herssveita í átt að lykilstöðum á Donbass. Til að það gerist þarf hún að neyða Rússa til að flytja herlið frá Donbass til Kursk.
Það hefur ekki gerst og fljótlega virtist líklegt að Pútín mundi ekki bíta á agnið heldur láta innrásina í Kursk yfir sig ganga – í bili – og vegna þess að ekkert mætti trufla sókn Rússa í Donbass. Nýlega sagði Pútín hreint út í ræðu að með innrásinni í Kursk hafi Úkrænumenn ætlað “stöðva sókn okkar gegn lykilstöðum í Donbass” en það hafi ekki gengið eftir.
Rússar hafa sótt að bæjunum Pokrovsk, Chasiv Yar og Kramatursk. Ef þeir féllu í hendur Rússa yrðu svæðin sem þeir eiga enn eftir að taka í Donbass innan seilingar.
Rússar eiga einungis eftir að taka um þriðjung af Donbas, en hafa jafnframt nauman tíma eða fram á haustið þegar svæðið breytist í forað þar til um áramót og jafnvel lengur. En þeir eiga möguleika á að ljúka sókninni í Donbass með sigri á þessu mikilvæga svæði. Áfallið fyrir Úkraínu yrði mikið sem fyrr sagði og í kjölfarið mundu Rússar geta flutt lið frá Donbass til Kursk til að sækja að Úkraínuher þar og hrekja út úr Rússlandi.
Þetta er hin áhættusama staða nú fyrir Úkraínu auk þeirrar hættu sem stafar frá eldfauga- og flugskeytaárásum Rússa á mikilvæga innviði en einkum raforkuver.
Hver trúir í alvöru eftir vægast sagt slaka frammistöðu rússneska hersins í Úkraínustríðinu að Rússland sé stórveldi.
En Úkraínustríðið hefur jafnframt leitt í ljós að Rússland er ekki burðugt herveldi – og ekki stórveldi
Innrás Rússa í Úkraínu, sem hófst í febrúar 2022, hefur verið næstum samfelld hrakför rússneskra hersveita. Svartahafsfloti Rússa er fyrir löngu flúinn af hólmi í átökum gegn ríki sem á ekki flota. Rússneski flugherinn hefur verið í aukahlutverki í átökunum í Úkraínu. Rússar hafa ekki sem heitið getur komið samræmdum hernaðaraðgerðum flughers og landhers í verk í stríðinu og Rússlandsher getur samkvæmt því ekki talist vera öflugur nútímaher. Allt þetta endurspeglar mikla og almenna veikleika rússneska hersins og Rússlands, veikleika sem Úkraínustríðið hefur afhjúpað og magnað.
Sókn rússneska hersins í Donbass hefur vissulega náð árangri en það er gegn veikburða andstæðingi og hún hefur gengið afar hægt og reynst hræðilega mannfrek talið í föllnum og særðum – og henni er enn ekki lokið. Hergagnatjón heldur áfram og er svo mikið að rússneski herinn verður að sækja skriðdreka, brynvagna og annan búnað í áratuga gamlar birgðir frá tíma Sovétríkjanna. Auk þess að neyðast til að kaupa hergögn frá ríkjum eins og Íran og Norður Kóreu.
Hver trúir í alvöru eftir vægast sagt slaka frammistöðu rússneska hersins í Úkraínustríðinu að Rússland sé stórveldi; herveldi sem geti haft í té við NATO og ógnað ríkjum þess eða öðrum Evrópuríkjum hernaðarlega?
Stefna og staðfesta NATO ríkjanna, örlæti þeirra í garð Úkraínu og fórnfýsi í þágu stöðugleika í Evrópu, mun skipta mestu þegar kemur að eftirmálum stríðsins í Úkraínu.
Á hinn bóginn hefur Úkraína ekki sterka stöðu.
Veikleikar Úkraínu í stríðinu eru margir en birtast skýrast á einum stað. Hann er sá að þrátt fyrir hraklega frammistöðu Rússlandshers og augljósa alvarlega veikleika hans má heita útilokað að Úkraínuher reki Rússa út úr Úkraínu.
Báðir herir virðast nálgast að vera að niðurlotum komnir í stríðinu í Úkraínu. Sá meginmunur er þó á að Rússar ráða enn yfir næstum 20 prósentum af úkraínsku landi.
Mun stríðið halda áfram eða nálgast það þann stað sem margir telja óhjákvæmilegan? Að komið verði á vopnahléi og samningum byggt á þeirri lykilforsendu að Úkraína gefi eftir land. Og hvað fengi hún i staðinn? Hvaða öryggistryggingar, hve mikinn hernaðarlegan stuðning til að styðja við þær, og hve mikla fjárhagslega aðstoð til að reisa við efnahaginn og byggja upp?
Þar yrði um risastórt verkefni að ræða sem kæmi að miklu leyti til kasta NATO ríkjanna að leysa og þeirra á meðal er Ísland auðvitað.
Stefna og staðfesta NATO ríkjanna, örlæti þeirra í garð Úkraínu og fórnfýsi í þágu stöðugleika í Evrópu, mun skipta mestu þegar kemur að eftirmálum stríðsins í Úkraínu.
Höfundur er sérfræðingur um öryggis- og varnarmál og fyrrverandi sendiherra Íslands í Bandaríkjunum og Rússlandi.
*Greinin birtist fyrst á vefsvæði Alberts á Facebook og heimasíðu þar sem hann fjallar reglulega um alþjóðamál.