Erlent

Refsing Trump í þagnar­greiðslu­máli á­kveðin eftir kosningar

Kjartan Kjartansson skrifar
Trump þarf ekki að þola þá niðurlægingu að vera gerð refsing í sakamáli í miðri kosningabaráttunni.
Trump þarf ekki að þola þá niðurlægingu að vera gerð refsing í sakamáli í miðri kosningabaráttunni. AP/Stefan Jeremiah

Dómari í New York féllst á kröfu verjenda Donalds Trump um að fresta ákvörðun refsingar hans í þagnargreiðslumáli hans þar til fram yfir forsetakosningarnar í nóvember. Sagði hann dómstólinn ekki vilja hafa áhrif á kosningarnar.

Trump var sakfelldur fyrir að falsa skjöl sem þess að hylma yfir þagnargreiðslur til fyrrverandi klámstjörnu í maí. Þar með varð hann fyrsti fyrrverandi forseti Bandaríkjanna til þess að hljóta dóm í sakamáli. Honum hefur þó enn ekki verið gerð refsing vegna brota sinna.

Juan Merchan, dómarinn í málinu, féllst í dag á kröfu lögmanna Trump um að fresta ákvörðun refsingar sem átti að fara fram 18. september. Þeir héldu því fram að dómstóllinn truflaði gang kosninganna með því að ákveða refsingu Trump í miðri kosningabaráttunni.

Í rökstuðningi sínum sagðist Merchan vilja forðast ásýnd þess að athafnir dómstólsins hefði einhver áhrif á framboð Trump, sama hversu ósanngjarnar ásakanir um það væru. Refsing Trump verður því ákveðin 26. nóvember, nokkrum vikum eftir kjördag.

Verjendur Trump hafa ekki aðeins sóst eftir því að fresta ákvörðun refsingarinnar heldur einnig að alríkisdómstóll taki málið úr höndum ríkisdómstólsins í New York. Alríkisdómstóllinn hafnaði þeirri kröfu á þriðjudag. Trump áfrýjaði þeirri niðurstöðu strax.

 Þá hafa þeir krafist þess að Merchan ógildi dóminn og vísi málinu frá á þeim forsendum að Trump njóti friðhelgi á grundvelli tímamótadóms Hæstaréttar Bandaríkjanna fyrr á þessu ári. Merchan frestaði jafnframt ákvörðun um þá kröfu fram yfir kosningar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×