Fótbolti

Hefur aldrei sungið þjóð­sönginn og byrjar ekki á því í dag

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Lee Carsley stýrir A-landsliði Englands í fyrsta sinn síðar í dag.
Lee Carsley stýrir A-landsliði Englands í fyrsta sinn síðar í dag. EPA-EFE/YURI KOCHETKOV

Hinn írski Lee Carsley, tímabundinn þjálfari enska A-landsliðsins, söng hvorki þjóðsönginn þegar hann spilaði fyrir Írland né þegar hann þjálfaði U-21 árs landslið Englands. Hann mun ekki byrja á því í dag þegar hann mætir þjóð sinni undir stjórn Heimis Hallgrímssonar.

Hinn fimmtugi Carsley lék allan sinn feril á Englandi með liðum á borð við Blackburn Rovers, Everton, Birmingham City, Coventry City og Derby County ásamt því að spila 40 A-landsleiki.

Eftir að hafa verið í þjálfun félagsliða frá 2012 til 2020 gerðist Carsley þjálfari U-20 ára liðs Englands. Ári síðar tók hann við U-21 árs landsliðinu og náði eftirtektarverðum árangri þar. Því var hann ráðinn tímabundið sem þjálfari A-landsliðs Englands þegar Gareth Southgate steig til hliðar.

„Það er eitthvað sem ég átti alltaf erfitt með þegar ég spilaði fyrir England,“ sagði Carsley, sem er fæddur í Birmingham, þegar kom að því að syngja írska þjóðsönginn.

„Ég var ávallt með alla mína einbeitingu á leiknum og hvað væri það fyrsta sem ég myndi gera í leiknum. Ég var ávallt mjög einbeittur á komandi leik og hef tekið það með mér inn í þjálfun,“ sagði Carsley um ástæðu þess að hann söng og syngur ekki þegar þjóðsöngurinn er spilaður.

„Ég virði báða þjóðsöngva og skil hversu mikið þeir þýða fyrir báðar þjóðir. Ég ber mikla virðingu fyrir því,“ sagði Carsley að endingu í viðtali fyrir leik Írlands og Englands sem fer fram síðar í dag.

Leikur Írlands og Englands í Þjóðadeild UEFA hefst klukkan 16.00 og er sýndur beint á Vodafone Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×