Fótbolti

Sæ­dís Rún og stöllur einu skrefi nær riðla­keppninni

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Sædís Rún í leik með íslenska landsliðinu.
Sædís Rún í leik með íslenska landsliðinu. Christof Koepsel/Getty Images

Sædís Rún Heiðarsdóttir spilaði síðari hálfleikinn í 3-1 sigri Vålerenga á Farul Constanta frá Rúmeníu. Sigurinn hleypir Vålerenga einu skrefi nær riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu og er merkilegur fyrir þær sakir að liðið var manni færri og marki undir frá því á 30. mínútu.

Leikurinn byrjaði ekki vel fyrir Vålerenga þar sem rúmenska liðið komst yfir eftir stundarfjórðung og þegar hálftími var liðinn fékk Selma Pettersen beint rautt spjald og lið Vålerenga því manni færri það sem eftir lifði leiks.

Elise Thorsnes jafnaði hins vegar metin í uppbótartíma fyrri hálfleiks og staðan 1-1 þegar liðin gengu til búningsherbergja. Sædís Rún kom inn af bekknum í hálfleik og Vålerenga sýndi mátt sinn í síðari hálfleik.

Janni Thomsen kom þeim yfir í upphafi síðari hálfleiks og gulltryggði svo sigurinn með öðru marki sínu og þriðja marki Vålerenga þegar tólf mínútur lifðu leiks. Lokatölur 3-1 og Vålerenga komið í umspil um sæti í riðlakeppninni.

Þá skoraði María Catharina Gros Ólafsdóttir tvö marka Linköping í ótrúlegum 8-0 sigri Linköping á First Vienna. Hún skoraði annað mark Linköping á 33. mínútu liðsins og það síðara á 63. mínútu. María var svo tekin af velli tveimur mínútúm síðar.

Liðin töpuðu bæði fyrsta leik sínum í keppninni og voru því úr leik fyrir leik dagsins. 

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×