Erlent

Reiði vegna út­nefningar nýs for­sætis­ráð­herra

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Um 130 mótmælafundir voru haldnir í Frakklandi í dag. 
Um 130 mótmælafundir voru haldnir í Frakklandi í dag.  EPA

Þúsundir mótmæltu í dag ákvörðun Emmanuel Macron Frakklandsforseta um að útnefna hægrimanninn Michel Barnier sem forsætisráðherra þjóðarinnar.

Mótmælt var á götum Parísar, Marseille, Nantes, Nice, Strassborgar og víðar en blásið hefur verið til um 130 mótmælafunda vegna útnefningarinnar. Verkalýðsforystan og vinstriflokkar boðuðu til mótmælanna en mikil reiði er meðal vinstrimanna í landinu yfir því að Macron hafi ekki valið Lucie Castets, forsætisráðherraefni vinstribandalagsins í embættið. 

Bandalag vinstri flokka hlaut flest sæti á þinginu í þingkosningunum sem haldnar voru í júlí en enginn flokkur eða hreyfing fékk afgerandi umboð, þrátt fyrir að Nouveau Front Populaire (NFP), bandalag vinstriflokka, hafi tryggt sér 180 þingsæti af 577 í seinni umferð kosninganna.

Barnier var áður aðalsamningamaður Evrópusambandsins og leiddi til dæmis samningaviðræðurnar þegar Bretar gengu úr úr samningu, Brexit. Hann segist opinn fyrir því að mynda ríkisstjórn með stjórnmálamönnum vinstri flokka. 

Jean-Luc Mélenchon úr vinstriflokknum Óbeygðu Frakklandi kallaði eftir „mestu mögulegu breytingum“ á skipun forsætisráðherra í mótmælagöngunni í París. Slagorðin „stöðvum valdarán Macron“, „höfnun lýðræðis“ og „kosningasvindl“ mátti sjá á skiltum mótmælenda. 


Tengdar fréttir

Tveggja daga viðræður um myndun ríkisstjórnar engu skilað

Pattstaða ríkir enn í pólitíkinni í Frakklandi en Emmanuel Macron Frakklandsforseti neitar ennþá að útnefna forsætisráðherra úr röð vinstrihreyfingarinnar, sem fékk flest atkvæði í þingkosningunum í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×