Sport

Draumur gull­hjónanna rættist í París

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Hamingjan er hér.
Hamingjan er hér. Ezra Shaw/Getty Images

Hunter Woodhall vann til gullverðlauna á Ólympíumóti fatlaðra sem fram fara í París aðeins mánuði eftir að eiginkona hans, Tara David-Woodhall, vann til gullverðlauna á Ólympíuleikunum sem fóru fram í sömu borg.

Hinn 25 ára gamli Hunter sigraði í 400 metra hlaupi karla í T62 flokki. Kom hann í mark á undan heimsmethafanum Johannes Floors frá Þýskalandi og Oliver Hendriks frá Hollandi.

Fagnaði Hunter með því að knúsa og kyssa eiginkonu sína en segja má að þau hafi skipt um hlutverk þar sem hann fagnaði með henni mánuði áður þegar hún vann til gullverðlauna í langstökki á Ólympíuleikunum.

„Ég er svo tilfinningaríkur núna að það er ótrúlegt. Ég hef beðið svo lengi, og verið svo áhyggjufullur að ég myndi aldrei ná þessu. Þetta er kennslustund í að setja sér háleit markmið og miða á stjörnurnar,“ sagði Hunter eftir að sigurinn var hans. Þetta var hans fyrsti titill eftir að hafa unnið til bronsverðlauna í sömu keppni í Tókýó.

Eiginkonan hefur kennt Hunter margt

„Tara hefur kennt mér svo mikið. Fyrir Ólympíuleikana skrifaði hún í dagbókina sína að hún yrði Ólympíumeistari, að hún væri sterk og fljót. Ég tók dagbókina mína með og hef verið að skrifa að ég yrði Ólympíumótsmeistari og það raungerðist.“

„Ég var svo stressuð. Það var draumur okkar beggja að vinna gull og nú höfum við náð því. Við munum bera þessi gull það sem eftir lifir,“ sagði Tara jafnframt um gull þeirra hjóna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×