Innlent

Bæjar­ráð vill opna Grinda­vík fyrir al­menningi

Bjarki Sigurðsson skrifar
Ásrún Helga Kristinsdóttir er forseti bæjarstjórnar Grindavíkurbæjar.
Ásrún Helga Kristinsdóttir er forseti bæjarstjórnar Grindavíkurbæjar. Vísir/Ívar Fannar

Bæjarráð Grindavíkur vill að lokunarpóstar við bæinn verði fjarlægðir og bærinn verði opnaður sem fyrst fyrir almenningi. Forseti bæjarstjórnar segist vilja sýna fólki að bærinn sé ekki vesældin ein. 

Bæjarráð ályktaði um þetta fyrir helgi á fundi sínum. Þetta er í fyrsta sinn sem ráðið óskar eftir því að lokunarpóstarnir séu fjarlægðir en bærinn hefur verið lokaður almenningi frá því að hann var fyrst rýmdur þann 10. nóvember á síðasta ári.

Ásrún Helga Kristinsdóttir, forseti bæjarstjórnar Grindavíkur og áheyrnarfulltrúi í bæjarráði, segir þetta vera rétta skrefið í áttina að því að byggja bæinn upp á ný.

„Það er líka svona persónuleg reynsla og mikilvægt að fólk fái að sjá það að þetta er ekki bara vesældin ein. Það er margt notalegt og gott inni í bæ. Við þurfum að sýna fólki það,“ segir Ásrún.

Bærinn sé að miklu leyti öruggt svæði.

„Það er mikil vinna innan bæjarins varðandi það að girða af hættuleg svæði og þeirri vinnu miðar mjög vel áfram. Svo er það jarðkönnunarverkefnið, það er langt komið. Þannig við viljum núna sjá ákveðna þróun í þessum málum. Við erum líka að hugsa um fyrirtæki sem vilja hefja rekstur,“ segir Ásrún.

Boltinn sé núna hjá Grindavíkurnefndinni og almannavörnum. Hún er bjartsýn á að bærinn verði opnaður almenningi.

„Ég hef í öllu þessu ferli verið bjartsýn. Mér finnst líka verktakarnir inni í bæ standa sig og það er mikil áræðni þar. Ég held að þetta verði skref í rétta átt fyrir okkur,“ segir Ásrún.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×