Fótbolti

Gengið vel gegn Tyrkjum: Ferna Arnórs og ó­gleyman­legt kvöld í Eskisehir

Valur Páll Eiríksson skrifar
Birkir Bjarnason fagnar marki sínu í Eskisehir árið 2017 og Atli Eðvaldsson kyssir Arnór Guðjohnsen eftir fernu hans gegn Tyrkjum árið 1989.
Birkir Bjarnason fagnar marki sínu í Eskisehir árið 2017 og Atli Eðvaldsson kyssir Arnór Guðjohnsen eftir fernu hans gegn Tyrkjum árið 1989. Samsett/Getty/Morgunblaðið

Karlalandsliðið í fótbolta hefur átt góðu gengi að fagna gegn Tyrkjum í gegnum tíðina. Tyrkir hafa aðeins unnið strákana okkar tvisvar í 13 viðureignum liðanna.

Ísland og Tyrkland mætast í fjórtánda sinn í kvöld þegar strákarnir okkar sækja Tyrki heim til Izmir. Um er að ræða annan leik Íslands í Þjóðadeildinni en 2-0 sigur vannst á Svartfellingum á föstudaginn var.

Fyrst mættust liðin árið 1980. Lið Tyrkja sem Ísland mætti þar, í undankeppni HM 1982, var ekki beysið. Það tapaði öllum átta leikjum sínum í þeirri undankeppni.

Guðni Kjartansson stýrði Íslandi til 3-1 sigurs ytra í fyrstu viðureign þjóðanna í september það ár og Ísland vann leikinn hér heima ári síðar 2-0 þar sem Atli Eðvaldsson var á skotskónum.

Liðin drógust saman öðru sinni í undankeppni HM 1990. Þau skildu jöfn í Tyrklandi í október 1988 en Ísland vann 2-1 sigur á Laugardalsvelli ári síðar. Ísland vann þá 5-1 sigur í æfingaleik árið 1991.

Í þeim leik skoraði Arnór nokkur Guðjohnsen fjögur af sínum 14 landsliðsmörkum.

Árið 1994 unnu Tyrkir sigur á Íslandi í fyrsta sinn. Fatih Terim var þá tekinn við liði Tyrkja og stýrði liðinu til 5-0 bursts á drengjum Ásgeirs Elíassonar. Útlaginn Hakan Sukur skoraði meðal annars tvö marka Tyrkja í leiknum.

Terim var aftur þjálfari Tyrkja 20 árum seinna þegar Ísland vann 3-0 sigur á Laugardalsvelli í undankeppni EM 2016. Það var á meðal frækinna sigra í þeirri undankeppni sem veitti Íslandi sæti á stórmóti í fyrsta sinn.

Sjá: Selcuk Inan ræðir aukaspyrnumarkið sem skaut Tyrkjum á EM 2016

Ótrúlegt sigurmark Selcuk Inan beint úr aukaspyrnu á 89. mínútu í síðari leik liðanna í Tyrklandi í sömu undankeppni þýddi að Tyrkir fylgdu Íslandi á EM og gleðin mikil meðal beggja liða eftir þann leik.

Ísland og Tyrkland drógust aftur saman í riðil í næstu undankeppni, fyrir HM 2018. Terim var enn þjálfari Tyrkja þegar þeir töpuðu 2-0 á Laugardalsvelli en Rúmeninn Mircea Lucescu var tekinn við þegar einn fræknasti og frægasti sigur í sögu þjóðar vannst á Ataturk vellinum í Eskisehir.

Eftir þann leik sagði Eiður Smári Guðjohnsen félaga sinn Jón Daða Böðvarsson hafa eignað sér treyjunúmerið 22, en Jón Daði lagði upp mörk þeirra Jóhanns Berg Guðmundssonar og Birkis Bjarnasonar í fyrri hálfleiknum áður en Kári Árnason innsiglaði 3-0 sigur Íslands snemma í síðari hálfleik.

Sjá: Mörkin þrjú úr geggjuðum sigri Íslands í Eskisehir

Sá leikur fór langt með að tryggja sætið á HM í fyrsta sinn og það var sama kvöld sem Finninn Pyry Soiri varð þjóðhetja á Íslandi þökk sé jöfnunarmarki hans gegn Króatíu í riðli Íslands.

Sigur Íslands á Kósóvó í Laugardalnum þremur dögum síðar gulltryggði HM-sætið á kostnað Króata sem fóru í umspil – en komust þó á mótið og unnu sigur á íslenska liðinu í Rússlandi.

Síðast mættust Ísland og Tyrkland í undankeppni EM 2020. Ragnar Sigurðsson skoraði bæði mörk Íslands í 2-1 sigri í Laugardalnum en liðin gerðu markalaust jafntefli ytra.

Sigursins í Laugardalnum er þó helst minnst vegna uppþvottaburstamálsins, svokallaða. Mikill stormur varð í Tyrklandi vegna Belga sem beindi uppþvottabursta að Emre Belözöglu, þáverandi leikmanni Tyrklands, í Leifsstöð í aðdraganda leiksins.

Að neðan eru raktar allar 13 viðureignir Íslands og Tyrklands í gegnum tíðina.

Leikur Tyrklands og Íslands hefst klukkan 18:45 í kvöld og verður hann sýndur í beinni útsendingu og í opinni dagskrá á Stöð 2 Sport. Upphitun fyrir leikinn hefst hálftíma fyrr, klukkan 18:15.

Leikir Íslands gegn Tyrklandi:

Undankeppni HM 1982

  • Tyrkland 1-3 Ísland
  • 0-1 Janus Guðlaugsson (12')
  • 0-2 Albert S. Guðmundsson (60')
  • 1-2 Fatih Terim, víti (72')
  • 1-3 Teitur Þórðarson (80')


  • Ísland 2-0 Tyrkland
  • 1-0 Lárus Guðmundsson (25')
  • 2-0 Atli Eðvaldsson (66')

Undankeppni HM 1990

  • Tyrkland 1-1 Ísland
  • 0-1 Ómar Torfason (62')
  • 1-1 Unal Karaman (73')


  • Ísland 2-1 Tyrkland
  • 1-0 Pétur Pétursson (58')
  • 2-0 Pétur Pétursson (72')
  • 2-1 Feyyaz Ucar (86')

Æfingaleikur 1991

  • Ísland 5-1 Tyrkland
  • 1-0 Arnar Grétarsson (2')
  • 1-1 Unal Karaman (14')
  • 2-1 Arnór Guðjohnsen (24')
  • 3-1 Arnór Guðjohnsen (34')
  • 4-1 Arnór Guðjohnsen (44')
  • 5-1 Arnór Guðjohnsen (64')

Undankeppni EM 1996

  • Tyrkland 5-0 Ísland
  • 1-0 Saffet Sancakli (8')
  • 2-0 Saffet Sancakli (26')
  • 3-0 Hakan Sukur (27')
  • 4-0 Hakan Sukur (61')
  • 5-0 Sergen Yalcin (65')


  • Ísland 0-0 Tyrkland

Undankeppni EM 2016

  • Ísland 3-0 Tyrkland
  • 1-0 Jón Daði Böðvarsson (19')
  • 2-0 Gylfi Þór Sigurðsson (76')
  • 3-0 Kolbeinn Sigþórsson (77')


  • Tyrkland 1-0 Ísland
  • 1-0 Selcuk Inan (89')

Undankeppni HM 2018

  • Ísland 2-0 Tyrkland
  • 1-0 Ömer Toprak, sjálfsmark (42')
  • 2-0 Alfreð Finnbogason (44')


  • Tyrkland 0-3 Ísland
  • 0-1 Jóhann Berg Guðmundsson (32')
  • 0-2 Birkir Bjarnason (39')
  • 0-3 Kári Árnason (49')

Undankeppni EM 2020

  • Ísland 2-1 Tyrkland
  • 1-0 Ragnar Sigurðsson (21')
  • 2-0 Ragnar Sigurðsson (32')
  • 2-1 Dorukhan Toköz (40')


  • Tyrkland 0-0 Ísland




Fleiri fréttir

Sjá meira


×