Innlent

Vista­skipti hjá fangelsismálastjóra

Tómas Arnar Þorláksson skrifar
Páll E. Winkel, fangelsismálastjóri.
Páll E. Winkel, fangelsismálastjóri. Vísir/Arnar

Páll E. Winkel mun taka ársleyfi frá embætti forstjóra Fangelsismálastofnunar frá 1. október næstkomandi og taka að sér störf á vegum háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins. Birgir Jónasson, lögreglustjóri á Norðurlandi vestra, verður settur forstöðumaður Fangelsismálastofnunar í fjarveru hans.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins

Páll mun starfa í ráðuneytinu til áramóta, en gegna embætti framkvæmdastjóra Menntasjóðs námsmanna frá 1. janúar til 30. júní 2025, meðan á námsleyfi Hrafnhildar Ástu Þorvaldsdóttur stendur. Páll hefur verið forstöðumaður Fangelsismálastofnunar frá árinu 2008. 

„Hjá háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu mun Páll starfa að heildarendurskoðun á lögum um Menntasjóð námsmanna sem ráðuneytið hefur til meðferðar. Vinnan hvílir á skýrslu um Menntasjóð námsmanna sem kynnt var 15. desember 2023 og þeim athugasemdum sem fram hafa komið, t.a.m. við breytingar á lögunum um menntasjóðinn vorið 2024,“ segir í tilkynningunni.

Birgir Jónasson hefur verið lögreglustjóri frá árinu 2021, lauk prófi frá Lögregluskóla ríkisins árið 2000, meistaraprófi í lögfræði árið 2010 og MBA gráðu árið 2017. Sigurður Hólmar Kristjánsson, staðgengill lögreglustjórans á Norðurlandi vestra mun gegna starfi Birgis yfir tímabilið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×