Fótbolti

Frakk­land með sann­færandi sigur á Belgíu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Frakkar fagna.
Frakkar fagna. EPA-EFE/GUILLAUME HORCAJUELO

Tveir leikir fóru fram í A-deild Þjóðadeildar karla í knattspyrnu í kvöld. Frakkland vann góðan 2-0 sigur á Belgíu á meðan Ítalía hefði þá átt að vinna Ísrael með meiri mun í leik sem fór fram á hlutlausum velli í Ungverjalandi.

Randal Kolo Muani kom Frakklandi yfir eftir undirbúning Ousmane Dembélé þegar rétt tæpur hálftími var liðinn. Reyndist það eina mark fyrri hálfleiks en það var hins vegar hart barist og fóru fjögur gul spjöld á loft.

Dembélé sjálfur tvöfaldaði forystuna á 57. mínútu eftir að hinn síduglegi N‘Golo Kanté stakk boltanum inn á vængmanninn sem skoraði með frábæru skoti.

Mörkin urðu ekki fleiri og Frakkland vann góðan 2-0 sigur eftir óvænt tap gegn Ítalíu í fyrstu umferð Þjóðadeildarinnar.

Ísrael tók á móti heitu liði Ítalíu í Ungverjalandi. Þar var Ítalía 1-0 yfir í hálfleik þökk sé sjóðandi heitum Davide Frattesi og Federico Dimarco, sá fyrrnefndi með markið og sá síðarnefndi með stoðsendinguna.

Davide Frattesi kom Ítalíu yfir.EPA-EFE/Tibor Illyes HUNGARY OUT

Eftir rúma klukkustund bætti Moise Kean við öðru marki Ítalíu þegar hann var réttur maður á réttum stað eftir að skot Giacomo Raspadori var varið. Var þetta fyrsta landsliðsmark Kean síðan árið 2021. 

Sandro Tonali hélt svo að hann hefði bætt við þriðja marki Ítalíu á 76. mínútu en markið var dæmt af vegna rangstöðu. Mohammed Abu Fani minnkaði muninn fyrir Ísrael undir lok leiks og þar við sat, 2-1 sigur Ítalíu staðreynd.

Staðan í riðli 2 í A-deild er því þannig að Ítalía er með sex stig, Frakkland og Belgía eru með þrjú stig á meðan Ísrael er án stiga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×