Þetta kemur fram í fjárlagafrumvarpi Sigurðar Inga sem hann kynnti á blaðamannafundi í morgun. Í fjárlögum hvers árs er að finna tæplega tvö hundruð heimildir. Massinn af heimildum færist milli ára en svo bætast nýjar heimildir við.
Að neðan má sjá nýjar heimildir ráðherra:
Sala fasteigna
2.36 Að selja fasteignina Lækjarbakka við Geldingalæk í Rangárþingi ytra.
Ráðstöfun lóða, spildna og jarða
3.31 Að heimila ráðstöfun á landi Fells í Suðursveit með sérleyfis- eða rekstrarleyfissamningum vegna áforma um uppbyggingu á innviðum á Jökulsárlóni.
3.32 Að heimila ráðstöfun á landi Skriðufells í Skeiða- og Gnúpverjahreppi vegna áforma um uppbyggingu á starfsemi eða innviðum við Þjórsárdal.
3.33 Að heimila ráðstöfun á landi Mógilsár í Reykjavík með sérleyfis- eða rekstrarleyfissamningum vegna áforma um uppbyggingu á þjónustumiðstöð og svifferju í Esjuhlíðum.
3.34 Að heimila Jarðasjóði að selja jarðirnar Önundarhorn og Gíslakot í Rangárþingi eystra.
3.35 Að ganga til samninga við Minjavernd um ráðstöfun á landi Ólafsdals í Gilsfirði.
Kaup og leiga fasteigna
4.23 Að kaupa eða leigja húsnæði fyrir Rannsóknarnefnd samgönguslysa.
4.24 Að kaupa hesthús við Brúnastaði í Hjaltadal vegna hestafræðideildar Háskólans á Hólum.
Kaup og sala hlutabréfa og aðrar ráðstafanir vegna umsýslu félaga
5.17 Að koma á fót félagi í samstarfi við sveitarfélög um rekstur almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu.
Ýmsar heimildir
7.26 Að heimila ráðstöfun á losunarheimildum, í samráði við ráðherra loftslagsmála, sem tilheyra íslenska ríkinu í viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir gróðurhúsalofttegunda til móts við loftslagsskuldbindingar íslenska ríkisins.
7.27 Að heimila ráðstöfun á losunarheimildum til flugrekenda, í samráði við ráðherra loftslagsmála, sem tilheyra íslenska ríkinu í viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir gróðurhúsalofttegunda.
7.28 Að ganga til samninga um uppgjör á ÍL-sjóði með skiptum á eignum úr eignasafni sjóðsins og tilteknum eignum ríkissjóðs, eftir atvikum skuldabréf, hlutabréf og aðrar sambærilegar eignir ásamt því að gera upp fyrirliggjandi ríkisábyrgð á skuldum ÍL-sjóðs.
7.29 Að standa að stofnun sjóðs um verk Jóns Leifs tónskálds og ráðstöfun eigna og réttinda úr dánarbúi sonar Jóns Leifs til slíks sjóðs sem annars myndu renna til ríkissjóðs.