Fótbolti

Gíraðir í stór­leik dagsins: „Nú er þetta í okkar höndum“

Aron Guðmundsson skrifar
Róbert Orri Þorkelsson, landsliðsmaður Íslands í fótbolta
Róbert Orri Þorkelsson, landsliðsmaður Íslands í fótbolta Vísir

Ís­lenska undir 21 árs lands­liðið í fót­bolta tekur á móti Wa­les í afar mikil­vægum leik í undan­keppni EM 2025 á Víkings­velli í dag. Róbert Orri Þor­kels­son, lands­liðs­maður Ís­lands, segir liðið vera með ör­lögin í sínum höndum og býst við miklum fætingi gegn Wa­les.

Okkar menn unnu gríðarlega mikilvægan sigur á Dönum á dögunum og eru nú aðeins tveimur stigum frá þeim og Wales í þriðja sæti en með leik til góða. Sigur gegn Wales í dag lyftir Ísland upp í 2.sæti riðilsins hið minnsta, jafnvel toppsætið ef Danir misstíga sig gegn Tékkum. 

„Nú er þetta í okkar höndum. Við þurfum bara að gíra okkur upp fyrir leikinn gegn Wales1,“ segir Róbert Orri, landsliðsmaður Íslands. „Það er ekkert síðra lið sem við erum að mæta þar, meiri fætingur í þeim leik heldur en á móti Dönunum sem voru minna í því að setja háa bolta fram á við þvert á við það sem ég held að Walesverjarnir geri. Við þurfum að vera klárir í baráttuna þar. Það verður verðugt verkefni að eiga við þá.“

Hann segir íslenska liðið ekki þurfa að aðlaga sinn leik að leik Walesverjanna. Undirbúningur liðsins sé sá sami og áður.

„Við búum okkur bara undir allt sem þeir gætu komið með. Þeir spila kannski aðeins öðruvísi kerfi en undirbúningurinn er sá sami og fyrir aðra leiki.“

Leikur Íslands og Wales í undankeppni EM undir 21 árs landsliða hefst klukkan hálf fimm á Víkingsvelli í dag og verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×