Innlent

Hinn grunaði í Selfossmálinu er látinn

Árni Sæberg skrifar
Karlmaður á þrítugsaldri var handtekinn á vettvangi og sat í gæsluvarðhaldi í tólf vikur. Hann var svo úrskurðaður í farbann en síðar var því aflétt.
Karlmaður á þrítugsaldri var handtekinn á vettvangi og sat í gæsluvarðhaldi í tólf vikur. Hann var svo úrskurðaður í farbann en síðar var því aflétt. Vísir

Karlmaður á þrítugsaldri sem grunaður var um að hafa orðið Sofiu Sarmite Kolsenikovu að bana á Selfossi í apríl í fyrra lést í vikunni. Rannsókn málsins verður lokið þrátt fyrir að ljóst sé að ákæra verði ekki gefin út í því.

Þetta staðfestir Karl Ingi Vilbergsson, saksóknari hjá Héraðssaksóknara í samtali við Vísi. Hann segir að matsmenn hafi verið dómkvaddir til þess að skera úr um dánarorsök Sofiu og niðurstöðu þeirra sé enn beðið.

Samkvæmt heimildum Vísis lést maðurinn í Taílandi. Dánarorsök hans liggur ekki fyrir að svo stöddu.

Munu komast að niðurstöðu

Rannsókn málsins verði leidd til lykta þrátt fyrir að ákæra verði ekki gefin út á hendur látnum manni. Niðurstaða hennar verði kunngjörð réttargæslumanni aðstandenda Sofiu og verjanda hins látna grunaða manns.

Maðurinn var grunaður um að hafa orðið Sofiu að bana auk þess að hafa spillt sönnunargögnum málsins áður en lögreglu var gert viðvart um andlátið með því að færa lík Sofiu.

Neitaði sök en var reikull í framburði

Maðurinn neitaði að hafa banað henni. Í fyrstu skýrslutöku sagði hann hana hafa látist af völdum ofskammts fíkniefna. Hann hefði komið að henni meðvitundarlausri á gólfinu á neðri hæð heimilis þeirra og líkami hennar þá verið orðinn stífur.

Hann sagði þetta hafa verið um tveimur klukkustundum eftir að þau hættu að stunda kynlíf, sem fól í sér endurtekin kyrkingartök, þar sem maðurinn þrengdi að hálsi konunnar. Því var haldið fram fyrir dómi að umrætt kynlíf hafi staðið yfir frá kvöldi fram til morguns og þau hafi bæði verið undir áhrifum kókaíns.

Frá fyrstu skýrslutöku breytti hann framburði sínum oftar en einu sinni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×