Viðskipti erlent

Gera Apple að greiða tvær billjónir í skatta

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá verslun Apple í Þýskalandi.
Frá verslun Apple í Þýskalandi. AP/Matthias Schrader

Evrópudómstóllinn hefur snúið við úrskurði neðra dómstigs í máli sambandsins gegn risafyrirtækinu Apple. Fyrirtækið mun því þurfa að greiða um 14,35 milljarða dala, plús vexti, í skatta.

Greiðslan án vaxta samsvarar tæplega tveimur billjónum króna, lauslega reiknað.

Málið á rætur sínar að rekja til ársins 2016 þegar framkvæmdastjórn ESB komst að þeirri niðurstöðu að Apple þyrfti að greiða írskum yfirvöldum fúlgur fjár vegna vangreiddra skatta. Yfirvöld á Írlandi voru sögð hafa veitt fyrirtækinu afslætti sem færu gegn reglum ESB og það hefði gert fyrirtækinu kleift að greiða mun minna í skatt en það ætti að gera.

Þá sagði framkvæmdastjórnin að fyrirkomulagið hefði gert Apple kleift að greiða rúmlega eitt prósent af tekjum sínum í Evrópu í skatt árið 2003. Árið 2014 hefði hlutfallið verið 0,005 prósent.

Sjá einnig: Apple skipað að greiða þúsundir milljarða vegna ógreiddra skatta í Írlandi

Tim Cook, forstjóri Apple, brást reiður við ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar árið 2016 og kallaði hana „pólitískt kjaftæði“. Donald Trump, þáverandi forseti Bandaríkjanna, varð einnig reiður og kallaði Margrethe Vestager, sem leiddi viðleitni framkvæmdastjórnarinnar til að koma böndum á sérstaka afslætti bandarískra tæknirisa innan ESB, „skattakonu“ sem „hatar Bandaríkin“, samkvæmt AP fréttaveitunni.

Tóku einnig Google fyrir

Evrópudómstóllinn komst einnig, samkvæmt frétt Wall Street Journal, að þeirri niðurstöðu að embættismönnum ESB hefðu verið í rétti þegar þeir sektuðu Google árið 2017 um 2,42 milljarða evra (um 370 milljarða króna) vegna brota á samkeppnislögum.

Sektin var gefin út árið 2017.

Sjá einnig: ESB sektar Google um 283 milljarða króna

WSJ hefur eftir talsmönnum Apple að forsvarsmenn fyrirtækisins séu óánægðir með úrskurð Evrópudómstólsins. Málið hafi ekki snúist um skattgreiðslur heldur hvert skattgreiðslurnar færu.

„Við borgum alltaf skatta, þar sem við erum með starfsemi og við höfum aldrei verið með sérstakt fyrirkomulag við yfirvöld á Írlandi.“

Talsmaður Google segir að fyrirtækið hafi strax árið 2017 gert breytingar vegna ákvörðunar framkvæmdastjórnarinnar um að sekta fyrirtækið það árið. Forsendur fyrir sektinni séu ekki lengur til staðar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×