Drífa Magnúsdóttir, forstöðumaður Laugardalslaugar, segir í samtali við fréttastofu að um eðlilega viðhaldslokun sé að ræða. „Slíkar lokanir hafa verið í smærri laugum borgarinnar í vor og í sumar – þá í viku á hverjum stað – en Laugardalslaugin er stærra verkefni og gerum við því ráð fyrir tveimur vikum.“
Drífa segir að viðhaldslokanir sem þessar hafi alla jafna verið á hverju ári í öðrum laugum en sjaldnar í Laugardalslauginni.

„Síðast var meðal annars unnið að endurnýjun og viðhaldi á kýraugum og við munum nú klára það verkefni. Svo er ýmislegt fleira. Við munum þannig mála, sinna múrverki og þrifum,“ segir Drífa.
Hún segir að þó að laugin verði lokuð almenningi þennan tíma þá verði áfram starfsemi í húsinu. Þannig verði innilaugin áfram opin fyrir skólahópa og æfingar.
Stefnt er að því að laugin opni á ný miðvikudaginn 25. september.



