Enski boltinn

Vildi ekki að nýi lands­liðs­þjálfarinn hefði sam­band við sig

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ben White hefur spilað vel með Arsenal en vill ekki spila fyrir enska landsliðið. Nýr landsliðsþjálfari breytti engu um það.
Ben White hefur spilað vel með Arsenal en vill ekki spila fyrir enska landsliðið. Nýr landsliðsþjálfari breytti engu um það. Getty/Neal Simpson

Lee Carsley stýrði enska landsliðinu til sigurs á Finnum í Þjóðadeildinni í gær en hann þurfti þó að svara spurningum um leikmann Arsenal eftir leikinn.

Enska landsliðið vann báða leiki sína í glugganum en enskir blaðamenn vildu fá að vita meira um stöðuna á Arsenal leikmanninum Ben White sem hefur verið fjarverandi í verkefnum landsliðsins þrátt fyrir góða frammistöðu í ensku úrvalsdeildinni.

Sendur heim af HM

Gareth Southgate, fyrrum þjálfari enska landsliðsins, talaði um það í mars að White vildi ekki lengur spila með landsliðinu. White var ósáttur við Southgate og aðstoðarmann hans Steve Holland á HM í Katar 2022.

White var sendur heim af heimsmeistaramótinu í Katar vegna persónulegra mála en allir við stjórn hjá enska landsliðinu neituðu því að það væru einhver leiðindi í gangi á bak við tjöldin.

„Ég var að hugsa um leikinn í kvöld en auðvitað leið ekki langur tími þar til að ég fór að hugsa um næstu verkefni,“ sagði Lee Carsley eftir sigurinn á Finnum.

Hann var spurður út í það hvort hann ætlaði að hringja í Ben White og reyna að fá hann til að breyta um skoðun.

„Ég hef ekki planað það að tala við hann. Ég hef samt sagt þetta áður. Allir sem mega spila fyrir enska landsliðið koma til greina hjá mér,“ sagði Carsley. ESPN segir frá.

Það er hans ákvörðun

„Eftir því sem ég veit þá bað hann [White] um að það að það yrði ekki haft samband við sig. Ef það breytist þá breytist það,“ sagði Carsley.

Blaðamenn vildu fá að vita hvort að væri líklegt að staðan á honum gæti breyst. Landsliðsþjálfarinn svaraði því óbeint.

„Það er mikilvægt að átta sig á því að það er mikil samkeppni út um allan völl hjá landsliðinu okkar. Því fleiri leikmenn sem eru í boði því meiri verður samkeppnin og það er alltaf betra. Við höfum ekki talað smaan og það er hans ákvörðun,“ sagði Carsley.

White hefur aðeins spilað fjóra landsleiki en hefur spilað mjög vel í hægri bakvarðarstöðunni hjá Arsenal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×