Innlent

Metfjöldi veðurviðvarana að sumri til eftir ró­legasta veturinn

Kjartan Kjartansson skrifar
Svo mikla úrkomu gerði að sums staðar flæddi inn í hús á Eyrinni á Siglufirði í ágúst.
Svo mikla úrkomu gerði að sums staðar flæddi inn í hús á Eyrinni á Siglufirði í ágúst. Mynd/Fjallabyggð

Á áttunda tug veðurviðvarana voru gefna út í sumar en þær hafa aldrei verið fleiri að sumarlagi frá því að Veðurstofan tók viðvaranakerfi sitt upp árið 2017. Á hinn bógin hafa aldrei verið færri viðvaranir að vetri til en síðasta vetur.

Af þeim 77 viðvörunum sem voru gefnar út í júní, júlí og ágúst voru 69 gular og átta appelsínugular. Tíu þeirra voru á Suðausturlandi og Breiðafirði. Fæstar viðvaranir voru gefnar út fyrir höfuðborgarsvæðið, tvær talsins. Tvisvar voru gefnar út veðurviðvaranir fyrir allt landið í norðanóveðri í júní.

Fjöldi sumarviðvarana á árunum 2018 til 2024. Viðvaranirnar í ár voru 27 fleiri en árið 2022 sem var fyrra metsumarið.Veðustofa Íslands

Sérstaklega var júní viðsjárverður í sumar en allar appelsínugulu viðvaranirnar voru gefnar út þá og 26 þeirra gulu. Þær tengdust nær allar norðanóveðri sem geisaði í byrjun mánaðarins, að sögn Veðurstofunnar. Þá gekk yfir landið norðan- og norðvestan hvassviðri eða stormur ásamt mikill úrkomu á Norður- og Austurlandi.

Júlí var rólegastur sumarmánaðanna en þá voru engu að síður gefnar út þrettán viðvaranir. Óvenjublautt var á landinu vestanverðu og voru sex rigningarviðvaranir. Hinar voru vegna vinds.

Þrjátíu viðvaranir voru gefnar út í ágúst, bæði vegna úrkomu og vinds í flestum landshlutum. Hvassviðri gerði á sunnan- og vestanverðu landinu um verslunarmannahelgina, mikið rigndi á norðanverðu landinu dagana 22.-24. águst og mikið vatnsveður gerði sunnan- og vestanlands við lok mánaðarins.

Veturinn 2023 til 2024 var aftur á móti mun rólegri í veðrinu. Aldrei hafa verið gefnar út færri viðvaranir en þá, alls 194 talsins. Af þeim voru 185 gular og níu appelsínugular.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×