Fótbolti

Mynda­töku­maður segir Emiliano Martínez hafa ráðist á sig

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Emiliano Martinez hefur verið mjög sigursæll með argentínska landsliðinu undanfarin ár.
Emiliano Martinez hefur verið mjög sigursæll með argentínska landsliðinu undanfarin ár. Getty/Daniel Jayo

Argentínski landsliðsmarkvörðurinn Emiliano Martínez kom sér í vandræði eftir tapið á móti Kólumbíu í undankeppni HM.

Myndatökumaðurinn Jhonny Jackson segir farir sínar ekki sléttar eftir samskipti við markvörðinn eftir lokaflautið.

Hann sagði kólumbískum fjölmiðlum frá því sem gerðist. Jackson kom upp að Emiliano Martínez þegar argentínski markvörðurinn var að þakka öðrum leikmanni fyrir leikinn.

Myndefnið sem hann náði sýnir markvörðinn, sem er kallaðir Dibu, slá í myndavélina sem fellur í framhaldinu í jörðina.

„Hann bara sló mig upp úr þurru,“ sagði Jackson við blaðamann RCN Deportes. ESPN segir frá.

„Ég varð reiður, mjög reiður. Ég var í vinnunni alveg eins og hann. Hann var að spila og ég var að taka upp með myndavélinni minni,“ sagði Jackson.

Myndatökumaðurinn sendi markverði Aston Villa síðan skilaboð.

„Sæll Dibu, vinur minn, hvernig hefur þú það? Ég er Jhonny Jackson, myndatökumaðurinn sem þú réðst á eftir leikinn á móti Kólumbíu. Ég vildi bara segja þér að það er allt í lagi með mig. Allir hafa kynnst því að tapa leik. Þetta tap skipti þig greinilega miklu máli en horfðu fram á veginn, Dibu,“ sagði Jackson.

Jackson vinnur fyrir fyrirtæki sem tekur upp efni fyrir sjónvarpsstöðvarnar Caracol Televisión og RCN Deportes.

Það er ákall eftir því frá Samtökum íþróttafréttamanna í Kólumbíu að FIFA taki á þessu máli og refsi Emiliano Martínez fyrir hegðun sína.

Emiliano Martinez var mjög fúll eftir tap Argentínu á móti Kólumbíu í undankeppni HM í vikunni.Getty/Andres Rot



Fleiri fréttir

Sjá meira


×