Ráðist var í aðgerðirnar í kjölfar fregna af misnotkun á einu heimilanna í Negeri Sembilan fyrr í mánuðinum. Umrædd heimili eru rekin af Islamic Global Ikhwan Group (GISB), sem reka hundruð fyrirtækja í 20 ríkjum.
Samkvæmt lögreglu virðast heimilin hafa verið sett á stofn til að safna fjárframlögum en forsvarsmenn GISB hafa neitað sök.
Mörg barnanna virðast hafa verið vistuð á heimilunum af foreldrum sínum, með það að markmiði að þau fengju trúarlega menntun.
Handteknu, sem eru á aldrinum 17 til 64 ára, eru grunaðir um að hafa misnotað börnin og þá leikur grunur á um að sum barnanna, sem eru á aldrinum eins til 17 ára, hafi einnig verið látin brjóta á öðrum börnum.
Samkvæmt lögreglu var börnunum tjáð að þetta væri partur af hinu trúarlega uppeldi.
Börnunum var refsað með heitum málmáhöldum og fengu ekki læknisaðstoð nema þegar þau voru orðin alvarlega veik.
Þau verða vistuð tímabundið á lögreglustöð í Kuala Lumpur, þar sem þau munu fá aðhlynningu.