Upp­gjörið: Stjörnukonur lentu undir eftir 35 sekúndur en sigruðu

Hinrik Wöhler skrifar
Stjörnukonur komu til baka og tryggðu sér sjöunda sætið í Bestu deildinni.
Stjörnukonur komu til baka og tryggðu sér sjöunda sætið í Bestu deildinni. vísir/Diego

Stjarnan tók á móti Tindastól í Garðabæ í dag en leikurinn var síðasti leikur liðanna á þessu tímabili. Þetta var þriðja og síðasta umferð neðri hluta Bestu deildar kvenna en Stólarnir þurftu að sigra Stjörnuna með tveimur mörkum til að komast upp fyrir Garðbæinga í töflunni.

Gestunum frá Sauðárkróki tókst ekki ætlunarverk sitt og endaði leikurinn með 2-1 sigri Stjörnunnar.

Leikurinn byrjaði fjörlega en eftir aðeins 35 sekúndur kom fyrsta mark leiksins. Gabrielle Johnson, leikmaður Tindastóls, vann boltann á miðjunni og fann Jordyn Rhodes í fætur. Hún lét vaða af 30 metrum og söng boltinn í netinu. Þetta var sannarlega mark af dýrari gerðinni en skotið sveif yfir Erin McLeod í marki Stjörnunnar. Ekki draumabyrjun fyrir kanadíska markvörðinn sem var að leika sinn síðasta leik fyrir Stjörnuna.

Erin McLeod fékk heiðursskiptingu á 80. mínútu í sínum síðasta leik fyrir Stjörnuna.Vísir/Pawel Cieslikiewicz

Um miðbik fyrri hálfleiks náði Stjarnan að jafna eftir góða sókn. Gyða Kristín Gunnarsdóttir sendi lága fyrirgjöf frá hægri kantinum sem rataði beint á Huldu Hrund Arnarsdóttur og henni brást ekki bogalistin og skaut viðstöðulaust að marki. Monica Wilhelm í mark gestanna náði ekki að koma vörnum við og leikurinn var jafn á ný.

Liðin skiptust á að sækja sem eftir lifði af fyrri hálfleik og þrátt fyrir samtals 15 hornspyrnur þá náði hvorugt lið að bæta við marki og staðan var 1-1 í hálfleik.

Garðbæingar komu einbeittir til leiks í síðari hálfleik og komust yfir á 48. mínútu. Hrefna Jónsdóttir fékk boltann á miðjum vallarhelming Tindastóls og þrátt fyrir að hafa þrjá varnarmenn Tindastóls fyrir framan sig keyrði hún af stað. Hún hljóp fram hjá þeim og afgreiddi færið snyrtilega í netið þegar hún komst inn í vítateiginn. Glæsilegt einstaklingsframtak hjá Hrefnu og heimakonur komnar yfir.

Eftir markið þá skiptust liðin á að sækja en þrátt fyrir aragrúa af föstum leikatriðum hjá báðum liðum komu ekki fleiri mörk í leikinn og Stjarnan fagnaði sigri í síðasta leik tímabilsins hjá liðunum.

Atvik leiksins

Gestirnir fengu sannkallaða draumabyrjun þegar Jordyn Rhodes skoraði glæsilegt mark í upphafi leiks. Stjörnukonur voru ekki mættar til leiks en þrátt fyrir þennan þrumufleyg voru heimakonur ekki slegnar út af laginu og snéru loks blaðinu við.

Stjörnur og skúrkar

Framherjinn ungi, Hrefna Jónsdóttir, lét mikið að sér kveða í leiknum í dag og skoraði sigurmark Stjörnunnar eftir gott einstaklingsframtak.

Þrátt fyrir ágætis pressu frá Stólunum þá voru varnarmenn Stjörnunnar fastir fyrir og komu öllum hættulegum fyrirgjöfum frá marki. Reynsluboltinn Anna María Baldursdóttir var öflug í hjarta varnarinnar ásamt allri varnarlínu Garðbæinga.

Það voru fáir leikmenn sem áttu sérstaklega vondan dag í Garðabænum. Tindastóll fékk á annan tug hornspyrna í leiknum, lítið kom út úr föstum leikatriðum hjá liðinu og eflaust mætti útfæra það betur.

Dómarar

Ásmundur Þór Sveinsson, dómari leiksins, lét leikinn fljóta vel á Samsungvellinum í dag. Hann þurfti ekki að taka á honum stóra sínum í dag enda virtust flestir leikmenn á vellinum vera sáttir með fenginn hlut í síðasta leik sumarsins.

Stemning og umgjörð

Stemningin litaðist af því að það var ekki mikið undir í leiknum í dag en bæði lið voru örugg með sæti sitt í deildinni og aðeins efsta sæti neðri hlutans var undir. Erin McLeod fékk heiðursskiptingu á 80. mínútu og tóku áhorfendur vel við sér, ljómandi gott framtak hjá þjálfarateymi Stjörnunnar.

Viðtöl

Halldór Jón: „Spennandi að sjá hvort að síminn verði ekki rauðglóandi“

Halldór Jón Sigurðsson, þjálfari Tindastóls, er stoltur af leikmönnum sínum eftir tímabilið.Vísir/HAG

Halldór Jón Sigurðsson, þjálfari Tindastóls, ætlar ekki að staldra of lengi við tapið í dag en hann var frekar sáttur með leikinn og tímabilið í heild sinni þegar hann var tekinn tali eftir leikinn í Garðabæ.

„Súrt að tapa náttúrulega. Við ætluðum að vinna með tveimur mörkum - yfirlýsingarglaður eins og vanalega. Við unnum ekki og því fór sem fór en það voru fullt af fínum spilköflum í þessum leik.“

„Við héldum boltanum oft á tíðum mjög vel, færðum milli kanta og gerðum það sem við ætluðum að gera en náðum ekki að klára það. Við ætluðum að komast mikið upp hægri kantinn og keyra einn á einn. Við sýndum góða takta og komust í góðar stöður en boltinn vildi ekki oftar inn,“ sagði Halldór eftir leikinn.

Halldór er þó virkilega stoltur af sínum leikmönnum eftir tímabilið og sér marga jákvæða punkta þegar hann lítur til baka.

„Ég er heilt yfir ótrúlega stoltur af stelpunum. Algjörlega frábært tímabil að mörgu leyti og margir leikir sem við áttum að fá meira úr en það segir okkur að frammistaðan hafi verið góð þannig virkilega stoltur af þeim.“

Þjálfarinn tekur tapinu með stóískri ró en leyfði sér þó að vera bjartsýnn eftir mark á fyrstu mínútu.

„Maður datt í bjartsýnisgír þegar við skoruðum á fyrstu mínútu en þetta skiptir engu máli, því miður. Það verður bara að segjast eins og það er en það hefði náttúrulega verið gaman að klára þetta eins og við ætluðum. Fullt af góðum spilköflum og leikmenn að spila sinn fyrsta leik í úrvalsdeild í dag. Það var margt jákvætt í þessu,“ sagði Halldór.

Hvernig metur Halldór tímabilið hjá sínu liði?

„Upp og niður. Margar góðar frammistöður, sérstaklega á heimavelli, sem við áttum að fá fleiri stig úr. Seinni hálfleikurinn í þessu móti voru fá stig, við unnum ekki leik í seinni umferðinni fyrir utan í úrslitakeppninni þannig það var vonbrigði.“

Það er óvíst með framhaldið hjá þjálfaranum en hann var þó glaðbeittur þegar hann var spurður út í næsta tímabilið og sagði að línan væri laus ef einhverjir hefðu áhuga að fá hann til starfa.

„Ég er samningslaus núna frá og með mánaðamótum og það verður spennandi að sjá hvort að síminn verði ekki rauðglóandi. Ég bý á Sauðárkróki og það kemur bara í ljós, ef einhver vill fá metnaðarfullan þjálfara og þá er bara að taka upp tólið og hringja. Ég vonast til að formaður Tindastóls geri það sama,“ sagði Halldór Jón léttur í bragði.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira