Innlent

Elvar á Ítalíu viður­kennir erfið­leika við launa­greiðslur

Jón Þór Stefánsson skrifar
Gestur á Ítalíu gægist út um glugga á mótmælendur á vegum Eflingar fimmtudaginn 12. september 2024.
Gestur á Ítalíu gægist út um glugga á mótmælendur á vegum Eflingar fimmtudaginn 12. september 2024. Vísir/Vilhelm

Elvar Ingimarsson, eigandi veitingastaðarins Ítalíu, viðurkennir að félagið hafi átt í erfiðleikum með að greiða út laun. Hann segir að sem stendur skuldi veitingastaðurinn tvær milljónir króna í ógreidd laun, sem samsvari um tveimur prósentum af launum sem hafa verið til greiðslu á þessu ári.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Elvari. Í gær stóð stéttarfélagið Efling fyrir mótmælum við veitingastaðinn Ítalíu vegna meintra brota Elvars gegn starfsfólki staðarins. Sjálfur segir Elvar að mótmælin hafi verið honum þungbær.

„Það er mér afar þungbært að stéttarfélagið Efling kjósi að efna til mótmæla fyrir utan veitingastað okkar og persónugera þau með myndum af mér. Tilgangurinn er, að manni sýnist, að skaða reksturinn sem mest þannig að okkur sé ekki kleift að vinna að lausn þessara mála og gera upp útistandandi skuldir.“

Erfitt að reka veitingastað í þessu umhverfi

Í yfirlýsingu sinni lýsir Elvar erfiðleikum við rekstur staðarins sem hann keypti í maí 2023.

„Fljótlega eftir kaupin kom fyrsta áfallið við reksturinn þegar húseigandi á Laugavegi ákvað að endurnýja ekki leigusamning við veitingastaðinn. Af þeim sökum þurftum við að flytja í árslok 2023 og flutti veitingastaðurinn á Frakkastíg,“ segir hann.

„Það er alltaf erfitt að flytja rótgrónn veitingastað í nýtt húsnæði.“

Þá tekur hann fram að Ítalía hafi ekki fengið neina opinbera styrki fengið vegna Covid. Styrkirnir hafi runnið til fyrri eiganda.

„Það hefur verið mjög krefjandi að reka veitingastaði í núverandi rekstrarumhverfi, sem einkennist af háum vöxtum, verðbólgu þar sem aðföng hafa hækkað stjórnlaust og hækkandi launakostnaði,“ segir hann.

Líkt og áður segir viðurkennir Elvar að Ítalía hafi lent í erfiðleikum með launagreiðslur. Hann segir að vinna við að leysa úr því sé í fullum gangi.

„Það er rétt sem komið hefur fram að við höfum lent í nokkrum erfiðleikum varðandi launagreiðslur til starfsfólks og vegna launatengdra gjalda. Eins hefur verið erfitt að fá hæft fólk til starfa og hefur það leitt til þess að starfsmannavelta hefur verið meiri en æskilegt er. Sem stendur skuldum við um 2 milljónir króna í ógreidd laun sem samsvarar um 2% af þeim launum sem hafa verið til greiðslu á þessu ári. Vinnan við að leysa úr því er í fullum gangi og viljum við biðja um vinnufrið á meðan sú vinna er í gangi.“

Hann segir Ítalíu vera langt frá því að vera eina rekstraraðilann í veitingageiranum sem glími við fjárhagsvanda og bera tölur um gjaldþrot þess skýr merki.

„Við ætlum að reyna að takast á við vandann og leysa hann en ekki færa hann á nýja kennitölu eins og tíðkast gjarnan,“ segir Elvar.

„Hefur fyrir vana að ráða fólk til vinnu en greiða þeim svo ekki laun“

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, sagði við mótmælin í gær að þar væru samankomnir meðlimir í trúnaðarráði Eflingar og fólk sem hefur „lent í klónum“ á Elvari.

„Við erum hér vegna þess að Elvar Ingimarsson er launaþjófur. Hann hefur fyrir vana að ráða fólk til vinnu en greiða þeim svo ekki laun,“ sagði hún.

Sólveig sagði að á síðustu tveimur árum hafi gríðarlegur fjöldi mála komið á borð Eflingar vegna launaþjófnaðar Elvars og annarra brota hans. 

„Við erum að tala um mörg hundruðir þúsunda, jafnvel yfir milljón af launum sem fólk hefur ekki fengið greitt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×