Sport

Þor­bergur vann sjö­tíu kíló­metra hlaup í Sviss

Sindri Sverrisson skrifar
Þorbergur Ingi Jónsson við endamarkið eftir sigurinn í dag.
Þorbergur Ingi Jónsson við endamarkið eftir sigurinn í dag. Instagram/@wildstrubelbyutmb

Ofurhlauparinn Þorbergur Ingi Jónsson gerði sér lítið fyrir og vann 70 kílómetra utanvegahlaupið „Wild 70“ í Sviss í dag.

Hlaupið var frá Crans-Montana í svissnesku ölpunum, alls tæpa 70 kílómetra með 3.700 metra hækkun. Hlaupaleiðinni var breytt á síðustu stundu til að forða keppendum frá mikilli snjókomu. 

Hér að neðan má sjá Þorberg klára næstsíðasta hluta hlaupsins, í snjókomu, og svo koma í mark við mikinn fögnuð.

Klippa: Þorbergur í svissnesku Ölpunum

Þorbergur kom ekki bara fyrstur í mark í sínum aldursflokki, flokki 40-44 ára karla, heldur fyrstur allra í hlaupinu. Hann hljóp á samtals 6 klukkustundum, 47 mínútum og 52 sekúndum, og var tæpum sex mínútum á undan næsta manni, heimamanninum Lucas Nanchen.

Samkvæmt úrslitasíðu mótsins hljóp Þorbergur að meðaltali á 10,5 kílómetra hraða og var hann í 19. sæti eftir 13 kílómetra en færði sig svo smám saman framar í röðina. 

Eftir 38 kílómetra var hann kominn upp í 6. sæti, og í 2. sæti eftir 49 kílómetra. Hann hafði svo tekið forystuna fyrir lokahlutann, þegar 14 kílómetrar voru eftir.

Fleiri Íslendingar eru í hlaupinu en enginn nema Þorbergur kominn í mark þegar þetta er skrifað. Yfir 800 keppendur voru skráðir til keppni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×