Viðskipti innlent

Ís­lands­banki hækkar líka vexti verð­tryggðra lána

Kjartan Kjartansson skrifar
Verðtryggð fasteignalán Íslandsbanka verða kostnaðarsamari eftir vaxtaákvörðun sem var tilkynnt um í dag.
Verðtryggð fasteignalán Íslandsbanka verða kostnaðarsamari eftir vaxtaákvörðun sem var tilkynnt um í dag. Vísir/Vilhelm

Vextir á verðtryggðum húsnæðislánum Íslandsbanka hækka um allt að hálft prósentustig í næstu viku. Hækkunin er aðeins minni en Arion banki tilkynnti um á miðvikudag og hefur sætt gagnrýni.

Fastir vextir verðtryggðra húsnæðislána Íslandsbanka hækka um 0,4 prósentustig og breytilegir vextir um 0,5 prósentustig þriðjudaginn 17. september, að því er kemur fram í tilkynningu Íslandsbanka sem var send út síðdegis á föstudegi. Það er 9,5 og 11,9 prósent hækkun. Til samanburðar hækkaði Arion vexti á verðtryggðum húsnæðislánum um tólf og fimmtán prósent.

Af óverðtryggðum húsnæðislánum lækka fastir vextir um 0,2 prósentustig til þriggja ára og 0,35 stig til fimm ára.

Verðtryggðir kjörvextir bankans hækka um 0,75 prósentustig. Vextir af yfirdráttarlánum lækka um allt að 0,2 stig.

Innlánsvextir hækka aðeins, á verðtryggðum reikningum um allt að 0,2 stig en óverðtryggðum um allt að 0,25 stig. Vextir óverðtryggðra veltureikninga lækka um allt að 0,4 prósentustig.

Þó að vaxtaákvörðunin taki gildi á þriðjudag breytast vextir á núverandi lánum í samræmi við skilmála þeirra og tilkynningar um slíkar breytingar. Kjör á innlánsreikningum breytast að tveimur mánuðum liðnum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×