Gangi veðurspár eftir gæti allt að þriðjungur ársúrkomu fallið í austanverðu Tékklandi, þar á meðal í höfuðborginni Prag, á fjórum dögum fram á sunnudag. Petr Fiala, forsætisráðherra landsins, varaði við því að flóð sem sjást aðeins aðeins einu sinni á öld gætu fylgt í kjölfarið.
„Við grípum til allra nauðsynlegra ráðstafana til þess að fyrirbyggja eigna- og manntjón,“ sagði Fiala í dag.
Prag, sem situr við bakka Moldár, varð fyrir miklum skakkaföllum í flóðum árið 2002. Þá þurftu tugir þúsunda manna að yfirgefa heimili sín og neðanjarðarlestarkerfi borgarinnar var á kafi í fleiri mánuði. Síðan þá hafa borgaryfirvöld fjárfest í flóðvörnum til þess að koma í veg fyrir að sagan endurtaki sig, að sögn Reuters-fréttastofunnar.
Búist er við að flóðin nái hámarki sínu í Prag á laugardagskvöld. Bohuslav Svoboda, borgarstjóri, segist viss um að fyrirbyggjandi aðgerðir nú forði því að flóðin verði eins afdrifarík og fyrir rúmum tuttugu árum.
Mikilli úrkomu er einnig spáð í sunnanverðu Þýskalandi, hlutum Austurríkis, Póllands og Slóvakíu næstu daga. Í síðasnefnda landinu er áin Morava þegar byrjuð að flæða yfir bakka sína og leita yfirvöld nú að óbyggðum svæðum þangað sem hægt er að veita flóðvatni á öruggan hátt.
Í Póllandi vara yfirvöld við skyndiflóðum og Donald Tusk, forsætisráðherra, segir björgunarsveitir í viðbragðsstöðu fyrir flóð.
Allt að tíu til tuttugu sentímetra úrkomu er spáð næstu daga í fjallahéruðum Austurríkis. Útlit er fyrir að úrkoman verði umfram metúrkomu fyrir allan september sums staðar, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC sem hefur eftir austurrískum veðurfræðingi að veðrið sem er í vændum sé fordæmalaust.