Íslenski boltinn

Tryggir ÍBV Bestu deildar sæti í dag? | „Þetta eru leikirnir sem þú vilt spila“

Aron Guðmundsson skrifar
Hermann Hreiðarsson er þjálfari ÍBV sem er einum sigri frá því að tryggja sér sæti í Bestu deild karla fyrir næsta tímabil
Hermann Hreiðarsson er þjálfari ÍBV sem er einum sigri frá því að tryggja sér sæti í Bestu deild karla fyrir næsta tímabil Vísir/Hulda Margrét

Eyja­menn eru með ör­lögin í sínum höndum fyrir loka­um­ferð Lengju­deildar karla í fót­bolta í dag. Sigur gegn Leikni Reykja­vík gull­tryggir sæti ÍBV í Bestu deildinni á næsta tíma­bili og myndi um leið binda endi á stutta veru liðsins í næst­efstu deild. Her­mann Hreiðars­son, þjálfari ÍBV segir sína menn klára í al­vöru leik gegn hættu­legu liði Leiknis sem hefur að engu öðru að keppa nema stoltinu.

Spennan í Lengju­deildinni hefur verið nær ó­bæri­leg á tíma­bilinu og sökum þess að að­eins topp­lið deildarinnar tryggir sér beint sæti upp í Bestu deildina, á meðan að liðin í öðru til fimmta sæti fara í út­sláttar­keppni, er ó­hætt að segja að spennan nái há­marki í loka­um­ferð dagsins.

Fyrir hana eru það læri­sveinar Her­manns Hreiðars­sonar úr Vest­manna­eyjum sem standa best að vígi á toppi deildarinnar með eins stigs for­ystu á Fjölni í öðru sætinu. Lið Grafar­vogs­búa er það eina sem getur hrifsað topp­sætið af ÍBV í dag. En til þess að gera það þarf Fjölnir að bera sigur úr bítum gegn Kefla­vík á úti­velli og um leið treysta á að Eyja­menn mis­stígi sig gegn Leikni í Breið­holtinu, annað hvort tapi leiknum eða geri jafn­tefli.

Eyja­menn vita að sigur í leik dagsins sér til þess að ÍBV snúi aftur í efstu deild. Staða sem Her­mann þjálfari hefði tekið fagnandi ef honum hefði verið boðið hún fyrir tíma­bilið.

„Að sjálf­sögðu. Maður hefði hrifsað það af hverjum sem er,“ segir Her­mann í sam­tali við Vísi í morgun. Her­mann hefur marga fjöruna sopið sem at­vinnu- og lands­liðs­maður í fót­bolta og nú sem þjálfari. Hann veit sem víst að Leiknir getur reynst hættu­legur and­stæðingur í dag þrátt fyrir að liðið hafi að engu að keppa nema stoltinu. Það eru oft erfiðustu and­stæðingarnir.

„Þeir eru með hörku lið. Við þurfum að eiga okkar dag og þá sér leikurinn um sig sjálfur. Við þurfum bara að spila vel og njóta þess að spila. Þetta eru leikirnir sem þú vilt spila. Stóru leikirnir með stórum verð­launum. Við ætlum að njóta dagsins í botn og erum klárir í al­vöru leik. “

Með þá stað­reynd í huga að sigur í dag gull­tryggir ykkur sæti í Bestu deildinni á næsta tíma­bili. Hvað viltu sjá frá þínum mönnum í dag?

„Í rauninni bara það sem að ég hef séð í allt sumar. Bara þetta vinnu­fram­lag og stemningu í liðinu sem hefur fleytt okkur langt. Við höfum farið mjög langt á stemningunni, leik­gleði og vinnu­semi. Ég vil bara sjá það frá mínum mönnum. Að menn séu að njóta þess að spila sinn fót­bolta. Við höfum verið að spila skemmti­legan bolta. Orku­mikinn bolta. Það er það sem maður fer fram á fyrir hvern einasta leik.“

Frítt er í Herjólf í til­efni dagsins og má gera ráð fyrir því að Eyja­menn fjöl­menni upp á land og í Breið­holtið til þess að styðja við bakið á sínum mönnum er þeir leggja í loka at­löguna í átt að Bestu deildar sæti.

„Jú það er engin spurning. Það er stemning fyrir þessum leik. Enda mikið undir. Við ætlum að gera þetta að skemmti­legum degi. Það verður gaman í Breið­holtinu.“

Loka­um­ferð Lengju­deildarinnar hefst klukkan tvö í dag. Við greinum frá úr­slitum hennar hér á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×