Midtjylland er ríkjandi meistari eftir æsispennandi endasprett á síðasta tímabili. FCK hafði unnið titilinn tvö ár á undan.
FCK komst yfir í leiknum með marki Kevin Diks af vítapunktinum, liðið hélt svo að það hefði bætt við á 60. mínútu þegar Magnus Mattsson kom boltanum í netið, en eftir myndbandsskoðun var markið dæmt af.
Heimamenn í Midtjylland hresstust við það og skoruðu jöfnunarmarkið skömmu síðar. Samspil fyrirliðanna tveggja sem skilaði því. Fyrirliðinn Mads Bech Sörensen með sendingu á varafyrirliða sinn, Oliver Sörensen, sem kom boltanum í netið.
Undir lokin lagði Midtjylland mikið kapp í að sækja sigurinn og sendi miðvörðinn Ousmane Diao fram völlinn. Það skilaði sér í marki á 79. mínútu eftir mikið klafs í teignum.

FCK gerði hvað það gat til að jafna leikinn en átti ekki erindi sem erfiði og Midtjylland vann 2-1 eftir að hafa lent undir.
Midtjylland er í efsta sæti deildarinnar með 20 stig eftir 8 leiki. FCK er í 4. sætinu með 14 stig eftir 8 leiki. Bæði lið hafa spilað einum fleiri leik en liðin í kring.