Lífið

„Höldum á­fram þangað til við erum dauðir“

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Magni og félagar í Á móti sól voru léttir í lund í kvöld fyrir tónleika.
Magni og félagar í Á móti sól voru léttir í lund í kvöld fyrir tónleika. vísir/ívar fannar

Tuttugu og fimm ár liðin frá því að Magni Ásgeirsson gekk til liðs við hljómsveitina Á móti sól og af því tilefni blæs hljómsveitin til tónleika í Bæjarbíói í Hafnarfirði í kvöld. Hann segir þá munu halda áfram að spila fram á síðasta dag. 

Í kvöldfréttum Stöðvar 2 var staðan tekin á hljómsveitarmeðlimum fyrir tónleika á meðan þeir hituðu upp. Þá fluttu þeir að sjálfsögðu brot úr slagara fyrir áhorfendur. 

„Þeir voru búnir að gefa út svona eina og hálfa plötun áður en ég kom inn í hljómsveitina. Þeir grínast nú með það að þetta hafi verið tilbúið þegar ég byrjaði. Síðasta púslið hafi verið ég. Þeir áttu alveg tvö, þrjú lög áður en ég kom,“ sagði Magni léttur í bragði. 

Hann var spurður hvað standi upp úr á þeim aldarfjórðungi sem hljómsveitin hefur verið starfandi.

„Guð minn almáttugur. Ég ætla að vera væminn og segja vinátta. Við höfum aldrei hætt, aldrei tekið pásu. Kannski verið rólegir í smá stund en alltaf haldið áfram að spila.“

Tónleikagestir máttu búast við fimm leynigestum. Mjög frægum, að sögn Magna. „Hreimur, Ragga Gísla,“ gaf hann upp. 

„Við höldum örugglega áfram þangað til við erum dauðir. Ég hugsa að það sé eina leiðin til að losna úr þessari hljómsveit.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×