Innlent

Dyra­verðir grunaðir um al­var­lega líkams­á­rás

Lovísa Arnardóttir skrifar
Lögreglan sinnti verkefnum í miðborginni í nótt eins og aðrar helgar. Myndin er úr safni.
Lögreglan sinnti verkefnum í miðborginni í nótt eins og aðrar helgar. Myndin er úr safni. Vísir/Kolbeinn Tumi

Dyraverðir skemmtistaðar í miðbænum voru handteknir í nótt grunaðir um alvarlega líkamsárás samkvæmt dagbók lögreglunnar. Þar kemur fram að málið sé í rannsókn og að margir hafi orðið vitni að árásinni.

Lögreglan sinnti fjölda annarra verkefna samkvæmt dagbók lögreglunnar en alls voru skráð skráð 67 mál á milli 17 og fimm í nótt. Átta gistu í fangageymslu. Lögregla var til dæmis kölluð til vegna eignaspjalla við skóla þar sem var búið að brjóta rúðu. Þá var tilkynnt um menn að slást í miðbænum og var annar þeirra vistaður í fangageymslu.

Eftirför lögreglu

Þá reyndi ökumaður bifhjóls að stinga lögregluna af í gær eftir að lögreglan gaf honum merki um að stöðva. Fram kemur í dagbók lögreglunnar að ökumaðurinn hafi ekið á um 200 kílómetra hraða á klukkustund á köflum og reynt að stinga lögreglu af með því að aka eftir göngustígum og gangstéttum. Lögregla náði að stöðva ökumanninn eftir eftirför. Maðurinn verður kærður fyrir fjölda brota á umferðarlögum, meðal annars að aka án réttinda.

Þá var lögregla kölluð til vegna ýmissa atvika í verslunum og bensínstöð auk þess sem hún hafði afskipti af þónokkrum aðilum vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis eða vímuefna.

Veistu meira um málið? Fréttastofa tekur við ábendingum á netfangið ritstjorn@visir.is. Fullum trúnaði er heitið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×