Fótbolti

KSÍ lýsir yfir á­nægju sinni með að Margrét taki mikil­væg verk­efni að sér

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Margrét Magnúsdóttir sést hér á æfingu með nítján ára landsliðinu.
Margrét Magnúsdóttir sést hér á æfingu með nítján ára landsliðinu. KSÍ

Margrét Magnúsdóttir flytur sig til hjá Knattspyrnusambandi Íslands og það verður nóg að gera hjá þjálfaranum á næstunni.

KSÍ segir frá því að Margrét, sem þjálfað hefur nítján ára landslið kvenna undanfarin ár með góðum árangri, sé hætt með það lið. Hún tekur hins vegar við Hæfileikamótun KSÍ og þjálfun fimmtán ára landsliðs kvenna.

Margrét mun einnig sinna starfi þjálfara 23 árs landsliðs kvenna samhliða þeim verkefnum.

„Mikil ánægja hefur verið með störf Margrétar hjá KSÍ og vill sambandið lýsa yfir ánægju sinni með það að Margrét taki þessi mikilvægu verkefni að sér,“ segir í frétt á heimasíðu KSÍ.

Þórður Þórðarson, sem verið hefur aðstoðarþjálfari Margrétar með nítján ára landslið kvenna, tekur í staðinn við liðinu sem aðalþjálfari.

Þórður hættir jafnframt störfum sem þjálfari sextán ára og sautján ára landsliða kvenna.

KSÍ á enn eftir að finna nýja þjálfara fyrir þessi tvö landslið en sambandið segir að þau mál séu í skoðun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×