Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu naut aðstoðar sérsveitarinnar við handtöku mannsins sem ók eftir gangstéttum og gangstígum í tilraun sinni til að stinga lögregluna af.
„Eftirförin hefst í bænum og endar í Mosfellsbæ. Þetta er sama mál,“ segir Þóra Jónasdóttir yfirlögregluþjónn hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í samtali við fréttastofu.
Glæfralegur akstur
Í frétt Vísis um málið í gær kom fram að mikill viðbúnaður hefði verið í Mosfellsbæ þar sem maðurinn var handtekinn. Fréttastofu barst ábending um glæfralegan akstur og fjöldamarga lögreglubifreiðar. Varðstjóri slökkviliðs staðfesti síðar að sjúkrabílar hafi fylgt bílunum í öryggisskyni.
Fram kom í dagbók lögreglu í morgun að maðurinn verði ákærður fyrir fjölda brota, meðal annars að aka án réttinda og fylgja ekki fyrirmælum lögreglunnar.