Körfubolti

„Sem sam­fé­lag erum við að vakna“

Aron Guðmundsson skrifar
Helena Sverrisdóttir, körfuboltagoðsögn, stendur fyrir afar áhugaverðum og skemmtilegum viðburði í Minigarðinum í kvöld.
Helena Sverrisdóttir, körfuboltagoðsögn, stendur fyrir afar áhugaverðum og skemmtilegum viðburði í Minigarðinum í kvöld. Vísir/Arnar

„Við finnum með­byr," segir Helena Sverris­dóttir, ein allra besta körfu­bolta­kona Ís­lands frá upp­hafi, sem á­samt Silju Úlfars­dóttur stendur fyrir á­horf­s­partýi í Mini­garðinum í kvöld sem hefur vakið mikla athygli. Þar verður horft á leik Indiana Fe­ver og Dallas Wings í WNBA deildinni í körfu­bolta en Caitlin Clark, stór­stjarna deildarinnar, leikur með Indiana Fe­ver.

Þó svo að yfir­lýst mark­mið við­burðarins sé að hafa gaman og skemmta sér saman vilja þær stöllur einnig með þessu vekja at­hygli á kvenna­í­þróttum og taka þátt í þeim með­byr sem ein­kennir þær um þessar mundir. WNBA deildin hefur ekki farið var­hluta af þeim vin­sældum.

Vin­sældir deildarinnar hafa aukist gífur­lega og dæmi um að á­horf hafi aukist um 170% og sömu­leiðis hefur að­sókn á leiki deildarinnar aukist til muna og er það leik­mönnum á borð við Caitlin Clark og Angel Reese ekki síst að þakka.

„Þær tvær hafa kannski svo­lítið borið uppi þessa brjáluðu aukningu á á­horfi og vin­sældum,“ segir Helena, sem stendur fyrir á­horf­s­partýinu í Mini­garðinum í kvöld á­samt Silju, í sam­tali við í­þrótta­deild Stöðvar 2. „En þessi bylgja er svo sem ekki bara að eiga sér stað núna í sumar. Þetta hefur verið að gerast hægt og ró­lega en svona sér­stak­lega síðustu tvö til þrjú ár hefur maður fundið vel fyrir því að það er verið að setja pening í kvenna­í­þróttirnar. Fólk sér að með því að setja fjár­muni í þetta, sam­hliða því að um­fjöllun er aukin, þá allt í einu gerast bara frá­bærir hlutir.“

Frábært framtak hjá þeim Helenu og Silju. Hugmynd sem kviknaði eftir spjall þeirra í íþróttahlaðvarpi Silju sem ber nafnið Klefinn og hægt er að finna á öllum helstu hlaðvarpsveitum.

Aukning á vin­sældum kvenna­í­þrótta gætir víðs vegar um heim. Ekki bara í WNBA deildinni í Banda­ríkjunum. Og vin­sælda aukningin er ekki bara aukinni fjár­festingu að þakka.

„Þetta helst allt í hendur og er ekki bara ein­hver einn hlutur sem þarf að gera. Sem sam­fé­lag erum við að vakna og átta okkur á því að konur geti líka spilað í­þróttir og eigi skilið þessa fjár­festingu sem við höfum séð í karla­boltanum.“

Clark og Reese eru mættar til þess að láta til sín taka í WNBA deildinni. Áhrifum þeirra gætir bæði innan sem og utan vallarVísir/Getty

Auk þess að horfa saman á leikinn í Mini­garðinum mun Helena sjálf, sem státar af afar sigur­sælum fé­lags­liða- og lands­liðs­ferli í körfu­bolta, fara yfir lið Indiana Fe­ver og Dallas Wings sem mætast í kvöld sem og rýna í leikinn á­samt lands­liðs­konunum Þóru Kristínu Jóns­dóttur og Söru Rún Hin­riks­dóttur. Við­tökurnar við við­burðinum hafa farið fram úr öllum væntingum og ljóst að þétt setið verður í Mini­garðinum í kvöld.

„Maður finnur fyrir sam­stöðunni. Stelpur, konur, stelpu­pabbar. Allt þetta fólk hefur verið að leita að ein­hverjum svona við­burði og vonandi verður þetta bara fyrsti við­burðurinn af mörgum þar sem að við erum að stíga saman í þá átt að lyfta þessu á næsta stig.“

Á­huga­samir geta bókað sér borð á við­burðinn í Mini­garðinum í kvöld hér.

Caitlin Clark áhrifin

WNBA deildin í körfu­bolta er spiluð yfir sumar­tímann í Banda­ríkjunum og klárast núna í októ­ber. Caitlin Clark og Angel Reese eru í Há­skóla­boltanum í fyrra sem varð gríðar­lega vin­sæll ekki síst vegna hæfi­leika þessara tveggja leik­manna og rígsins sem að myndaðist á milli þeirra innan vallar.

„Það sem að gerist svo er að þær báðar eru valdar í ný­liða­vali WNBA deildarinnar sem byrjaði skömmu eftir að tíma­bilið í há­skóla­boltanum kláraðist. Þar með færði allt fólkið, sem hafði fylgt þeim í há­skóla­boltanum, sig yfir á WNBA deildina og fór að fylgja þeim þar.

Þetta eru frá­bærir ný­liðar sem koma inn af miklum krafti og eru að setja alls konar met. En það má samt sem áður ekki gleymast að fyrir er fullt af mjög góðum körfu­bolta­konum í þessari deild þó svo að Clark og Reese komið með þetta á­horf með sér.

Caitlin Clark og Angel Reese háðu harða baráttu í háskólaboltanum í Bandaríkjunum áður en þær settu sitt mark heldur betur á WNBA deildina þar í landiVísir/Getty

Caitlin Clark er stelpa sem kemur úr Iowa skólanum í Banda­ríkjunum. Skóli sem er ekkert endi­lega sá stærsti körfu­bolta­lega séð en hefur alltaf verið á­gætur. Hún er að taka þrista frá miðju, kemur með skemmti­legar hreyfingar og hefur ein­hvern veginn þau á­hrif að hrífa fólk með sér.

Sama gildir um Angel Reese sem er þó allt öðru­vísi leik­maður. Á meðan að Caitlin er að skjóta þristum og gefa stoð­sendingar þá er Angel í frá­köstunum og keyrir inn að körfunni og klárar skotin þar. WNBA deildin hefur verið til staðar í mörg ár en á­huginn núna er bara allt annar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×