Innlent

Sjaldan jafn mikil þörf á mann­réttinda­bar­áttu

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Hátíðardagskrá var í Iðnó í tilefni afmælisins.
Hátíðardagskrá var í Iðnó í tilefni afmælisins. vísir

Sjaldan hefur verið jafn mikil þörf á mannréttindabaráttu í heiminum og akkúrat núna að sögn framkvæmdastjóra Íslandsdeildar Amnesty International. Íslandsdeildin fagnaði fimmtíu ára afmæli í dag.

Þann 15. september 1974 var Íslandsdeild Amnesty International stofnuð í Norræna húsinu. Í tilefni af afmælinu hefur farið fram fjölbreytt dagskrá alla helgina, sem náði hápunkti á sjálfan afmælisdaginn sem er í dag.

Skrúðganga var gengin frá Hallgrímskirkju að Iðnó í miðbæ Reykjavíkur. Þar tók við hátíðardagskrá með veitingum, skemmtun og söng.

Þótt margt hafi áunnist í mannréttindabaráttunni á þeim fimmtíu árum sem Íslandsdeildin hefur verið starfandi, er mannréttindabaráttunni þó hvergi lokið að sögn Önnu Lúðvíksdóttur, framkvæmdastjóra Íslandsdeildar Amnesty International.

„Auðvitað er þetta fögnuður og við erum að fagna öllum árangri og sigrum og því fólki sem hefur starfað með okkur. En á sama tíma að blása krafti í mannréttindabaráttuna því heimurinn í dag er kannski ekki á mjög góðum stað og sjaldan verið jafn mikil þörf á jafnréttindarbaráttu eins og akkúrat núna.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×