Innlent

Faðirinn hafi bent lög­reglu í átt að stúlkunni

Jón Þór Stefánsson og Bjarki Sigurðsson skrifa
Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglu.
Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglu. Vísir/Arnar

Íslenskur karlmaður á fimmtugsaldri sem er grunaður um að hafa orðið tíu ára dóttur sinni að bana hefur verið samvinnufús að mati Gríms Grímssonar, yfirlögregluþjóns hjá miðlægri rannsóknardeildar lögreglu.

Karlmaðurinn hringdi sjálfur í Neyðarlínuna um kvöldmatarleytið í gærkvöldi til að komast í samband við lögreglu. Hann var óskýr um staðsetningu sína, en hann reyndist vera staddur í hrauni gegnt Vatnsskarðsnámu við Krýsuvíkurveg.

„Það kemur tilkynning til okkur laust eftir sex í gærkvöldi þar sem sá sem er grunaður tilkynnir um atburðinn,“ segir Grímur í samtali við fréttastofu.

Lögreglan kom á vettvang skömmu síðar. Þar var maðurinn handtekinn og leitað var að stúlkunni, en hún fannst skammt frá.

Grímur segir að hann hafi bent lögreglu á þann stað sem þeir fundu stúlkuna.

Dagurinn í dag hefur að sögn Gríms farið í að tryggja rannsóknargögn, og segja þeim sem þurfa að vita af málinu, líkt og fjölskyldu, frá því.

Ekki er grunur um að maðurinn hafi verið undir áhrifum fíkniefna að svo stöddu.

Grímur segist ekki ætla að tjá sig að svo stöddu um hvort lögregla hafi lagt hald á vopn í tengslum við málið.

Þá er ekki grunur um að sakborningar málsins séu fleiri, né að maðurinn tengist skipulagðri glæpastarfsemi. Grímur tekur þó fram að rannsókn mála sem þessara geti farið með mann á óvæntar slóðir.

Hann segir að ekki sé grunur um að maðurinn hafi ætlað að hylma yfir brot sín, hann hafi sjálfur gert lögreglu viðvart um málið.

Hefur áður komið við sögu lögreglu

Karlmaðurinn sem grunaður er um verknaðinn hefur komið við sögu lögreglu. 

Fyrir hálfum öðrum áratug var hann dæmdur í tæplega fjögurra ára fangelsi fyrir innflutning á umtalsverðu magni á fíkniefnum. Hann bar fyrir dómi að hafa neyðst til að fara í ferðina sem burðardýr vegna alvarlegra hótana í garð fjölskyldumeðlims. Faðirinn var þá tæplega þrítugur og hafði ekki áður komist í kast við lögin.

Rúmum áratug síðar var karlmaðurinn dæmdur í skilorðsbundið fangelsi eftir að hafa verið gripinn með kannabisplöntur og maríjúana á heimili sínu í Reykjavík. Hann játaði brot sitt skýlaust.


Tengdar fréttir

Faðirinn í Krýsuvík hefur komið við sögu lögreglu

Karlmaður í haldi lögreglu vegna gruns um að hafa orðið ungri dóttur sinni að bana hefur bæði hlotið þungan dóm fyrir fíkniefnainnflutning og kannabisræktun. Karlmaðurinn er á fimmtugsaldri.

Íslenskur faðir grunaður um að hafa banað dóttur sinni

Karlmaður sem var handtekinn í gærkvöldi grunaður um að hafa orðið ungri stúlku að bana er faðir stúlkunnar. Þetta herma heimildir fréttastofu. Faðirinn var handtekinn í Krýsuvík um kvöldmatarleytið í gærkvöldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×