Íslenski boltinn

„Þetta er fokking Valur-KR og ef menn fá ekki að kljást í þeim leik þá er eitt­hvað að“

Andri Már Eggertsson skrifar
Kristinn Freyr Sigurðsson hendir sér í tæklingu.
Kristinn Freyr Sigurðsson hendir sér í tæklingu. Vísir/Pawel Cieslikiewicz

Valur vann sannfærandi 4-1 sigur gegn KR á heimavelli. Kristinn Freyr Sigurðsson, leikmaður Vals, var ánægður með sigurinn.

„Mér leið vel allan fyrri hálfleikinn en það fór smá um mann í seinni hálfleik hugsandi um gengið undanfarið en við sköpuðum fleiri færi en þau sem við skoruðum úr og við getum verið nokkuð sáttir með þennan leik. Fyrst og fremst var þetta frábær liðssigur,“ sagði Kristinn Freyr Sigurðsson eftir leik.

Kristinn var ánægður með ákefðina í upphafi sem skilaði sér í marki eftir innan við fimmtán mínútna leik.

„Við erum vanir að byrja leiki vel og síðan fer að fjara undan okkur þegar það líður á sem við erum að reyna að breyta. Það var frábært eftir að þeir minnkuðu muninn að vinna leikinn með þriðja markinu og síðan kom fjórða markið undir lokin.“

Aron Sigurðarson, leikmaður KR, minnkaði muninn í 2-1 í seinni hálfleik og gestirnir fengu færi til þess að jafna. Kristinn viðurkenndi að hann hafi verið orðinn smeykur á þeim kafla.

„Já sérstaklega út af undanförnum leikjum. Mér fannst þetta full auðvelt mark og við erum búnir að fá svolítið af skítamörkum á okkur en sem betur fer kom það ekki að sök.“

Það myndaðist hiti milli leikmanna Vals og KR eftir að Ástbjörn Þórðarson, leikmaður KR, þrumaði Gylfa Þór Sigurðsson, leikmann Vals, niður. Kristinn var meðal fjögurra leikmanna sem fékk gult spjald. Honum fannst þó dómarinn bregðast allt of harkalega við.

„Ég skildi ekki af hverju dómarinn spjaldaði í þessu tilfelli. Þetta er fokking Valur-KR og ef menn fá ekki að kljást í þeim leik þá er eitthvað að. Íþróttin verður að vera skemmtileg fyrir áhorfendur, þá sem eru að horfa í sjónvarpinu og ekki síst okkur leikmennina.“

„Við leikmennirnir viljum kljást og rífa kjaft við hvorn annan án þess að þurfa að vera á bremsunni og fá gul spjöld. Það er algjörlega óþolandi að það sé verið að spjalda á einhverja fokking þvælu og það á að leyfa mönnum að kljást sérstaklega í þessum leik,“ sagði Kristinn Freyr að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×