Íslenski boltinn

Flestir mæta á heima­leiki Blika

Sindri Sverrisson skrifar
Þessir krakkar skemmtu sér vel á Kópavogsslag Breiðabliks og HK.
Þessir krakkar skemmtu sér vel á Kópavogsslag Breiðabliks og HK. vísir/Viktor Freyr

Fleiri áhorfendur mættu á leiki fram að úrslitakeppni Bestu deildar karla í fótbolta í ár en í fyrra. Nú hefur deildinni verið skipt í tvennt og fram undan fimm æsispennandi umferðir í neðri og efri hluta.

Þetta er þriðja árið þar sem að Íslandsmótinu lýkur ekki við 22. umferð, heldur tekur við lokakafli þar sem sex efstu liðin mæta hvert öðru, og sex neðstu liðin mæta hvert öðru.

Meðaláhorfendafjöldi í umferðunum 22 í ár var 871, því alls sóttu 114.935 manns leikina 132, samkvæmt yfirliti KSÍ.

Í fyrra mættu 843 að meðaltali á hvern leik, svo fjölgunin nemur að meðaltali 28 manns á leik.

Breiðablik trekkir flesta að því að meðaltali hafa 1.279 manns mætt á Kópavogsvöll í sumar. Næstflestir hafa mætt á heimaleiki KR eða 1.239 manns að meðaltali.

Mætingin hefur verið góð á heimaleiki KR, þó að gengi liðsins hafi verið slæmt.vísir/Diego

Best sótti leikur sumarsins var þegar Breiðablik tók á móti Víkingi, en á þann leik mættu 2.215 manns. Tvö þúsund manna múrinn var einnig rofinn í Víkinni þegar Blikar mættu þangað, en alls mættu 2.108 manns. Forvitnilegt verður að sjá hve margir mæta þegar liðin mætast í lokaumferð Íslandsmótsins, þar sem sjálfur Íslandsmeistaratitillinn verður mögulega í húfi.

Þrátt fyrir erfitt tímabil í Vesturbænum þá hefur tvö þúsund manna múrinn tvívegis verið rofinn á heimaleikjum KR-inga. Það gerðist á föstudaginn í sérstökum styrktarleik fyrir Alzheimer-samtökin, þegar 2.170 manns mættu, og einnig þegar Blikar komu í heimsókn en þá mættu 2.107 manns.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×