Bjarni segir ákvörðun dómsmálaráðherra um að fresta brottvísun hans ekki einsdæmi. Það hafi gerst áður að brottvísun hafi verið frestað. Það hafi komið fram beiðni frá ráðherra Vinstri grænna að málið yrði skýrt betur áður en af brottvísuninni yrði.
„Við því var orðið og við höfum verið að funda um það,“ segir Bjarni og að beiðninni hafi ekki verið svarað undir hótunum frá Vinstri grænum. Rætt var við Bjarna að loknum ríkisstjórnarfundi í dag.
Fylgja verði lögum
Hann segir að beiðni Vinstri grænna hafi fylgt efasemdir um þessa framkvæmd. Það hafi verið farið ofan í þetta allt á fundi ríkisstjórnarinnar. Niðurstaðan sé sú að það verði að fylgja lögum.
Bjarni segir að honum virðist hafa verið staðið ágætlega að ákvörðuninni um að brottvísa Yazan. Hann hafi ekki séð neitt við ákvörðunina sem sýni að ekki hafi verið rétt staðið að henni. Hann segir Vinstri græna hafa haft áhyggjur af framkvæmdinni samt sem áður.
Hann segir að á árinu hafi verið framkvæmdar um eitt þúsund brottvísanir og það hafi verið mat dómsmálaráðherra að það mætti láta á það reyna hvort það væri hægt að fresta henni. Brottvísunin standi sem áður. Ákvörðun hennar hafi aðeins snúið að því hvort það mætti fresta henni.
Bjarni segir ljóst að ríkisstjórnin muni ekki taka ákvörðun um brottvísunina.
„Það sem okkur munar um er að það séu reglur sem eiga að gilda um alla. Það er algert grundvallaratriði,“ segir Bjarni og að það sé verið að treysta á viðamikið kerfi sem lögreglan og fleiri koma að.
Sem hafi hnökralaust á þessu ári tryggt brottvísun um eitt þúsund einstaklinga.
„Það er engin ástæða til að efast um kerfið í heild sinni,“ segir Bjarni og að hér sé að ræða einstakt tilvik. Það sé óvanalegt að slíkt sé tekið fyrir í ríkisstjórn. Þau hafi ekki séð neitt sérstakt við málið í sínum umræðum og því standi það áfram í því ferli sem það er. Að brottvísunin standi.