Fótbolti

Af­mælis­barnið Arne Slot segir já­kvætt að Liverpool hafi lent undir

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Afmælisbarnið á hliðarlínunni.
Afmælisbarnið á hliðarlínunni. Image Photo Agency/Getty Images

Arne Slot á 46 ára afmæli í dag og fagnaði því samhliða sigri Liverpool gegn AC Milan í Meistaradeildinni. Hans menn lentu snemma undir, sem Slot segir hafa gert liðinu gott.

„Ég held að það hafi verið jákvætt, að lenda 1-0 undir, við vildum sjá hvernig liðið myndi bregðast við,“ sagði Slot eftir leik í viðtali við Amazon sem Sky Sports skrifaði upp.

„Við sýndum hvað við getum verið góðir á boltanum. Við getum spilað svo vel, þess vegna er það hreinlega skömm að hafa tapað á heimavelli gegn Forest, og mæta svo með svona frammistöðu í næsta leik.“

Báðir miðverðir Liverpool skoruðu í leiknum. Ibrahima Konaté jafnaði og Virgil Van Dijk kom þeim yfir. Hann tók undir með þjálfara sínum og sagði tapið gegn Nottingham Forest síðustu helgi hafa setið í þeim.

„Eftir erfiða byrjun vorum við frábærir í dag. Við vorum auðvitað mjög svekktir eftir helgina, á svo margan hátt, en við fengum tækifæri til að bæta úr því í dag og nýttum það vel,“ sagði fyrirliðinn.

Liverpool á næst leik Bournemouth í ensku úrvalsdeildinni á laugardaginn og mætir svo West Ham í enska deildarbikarnum á miðvikudag. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×